Fréttir / News

50 ára hrl. afmæli Ragnars Aðalsteinssonar

  |   Fréttir af stofunni

Mánudaginn 12. desember 2016 hélt Ragnar Aðalsteinsson, einn eigenda Réttar – upp á fimmtíu ára starfsafmæli sitt sem hæstaréttarlögmaður. Aðeins er vitað til þess að einn maður hafi starfað lengur sem hæstaréttarlögmaður, en það er Sveinbjörn Jónsson hrl. sem gegndi hlutverkinu í 53 ár.

Í tilefni af þessum merkisáfanga tóku Þyrí Steingrímsdóttir hrl. og Eyrún Ingadóttir hjá Lögmannablaðinu viðtal við Ragnar þar sem hann fór yfir ýmislegt minnisvert úr starfi sínu. Í viðtalinu fjallaði Ragnar einnig um hugmyndir sínar um hlutverk lögmanna og ýmsilegt skemmtilegt eins og heilasýni úr Einari Benediktssyni.

Í viðtalinu sagði Ragnar meðal annars um lögmenn:

„Við eigum að beita okkur fyrir því að fólkið í landinu nái fram rétti sínum og það gerum við ekki nema með því að taka að okkur það sem sumir kalla „skrítin“ mál. Þannig þróast rétturinn. Ef maður skoðar rit fræðimanna þá er eins og þeir haldi að dómstólar ákveði hvaða mál þeir taki fyrir. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Málin sem dómstólar fjalla um koma fyrir þá af því að það eru lögmenn sem leggja málin fyrir með tilteknum hætti. Dómstólar geta aldrei gert annað en veita svör við spurningum lögmanna þannig að hlutverk lögmanna í þróun réttarins er miklu meira en af er látið. Fræðimenn gleyma því hverjir það eru sem hrinda þessari þróun af stað og leggja línurnar með bæði dómkröfunum og með þeim rökum sem þeir byggja kröfur sínar á.“

Viðtalið má lesa hér og hefst á blaðsíðu 12.

Þess má geta að í næsta tölublaði Tímarits lögréttu, sem áætlað er að komi út í janúar 2017, verður fjallað ítarlegar um eftirminnileg mál Ragnars og sögur úr starfinu. Sú grein verður að sjálfsögðu kynnt betur á heimasíðu Réttar.