Hvað er Réttur?

Rætur Réttar má rekja til ársins 1969 þegar Ragnar Aðalsteinsson stofnaði lögmannsstofu sína. Meðeigendur Ragnars í Rétti eru Sigurður Örn Hilmarsson, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Védís Eva Guðmundsdóttir og Kári Hólmar Ragnarsson.  Allt frá stofnun stofunnar hefur áhersla verið lögð á framgang réttarins með manngildishugsjón að leiðarljósi og veitir Réttur þannig fólki og félögum alhliða þjónustu í sókn og vörn réttinda sinna. Hugmyndafræðilegur grundvöllur Réttar er óbreyttur frá árdögum Ragnars Aðalsteinssonar í sjálfstæðri lögmennsku, þ.e. að lögmaðurinn gegni hlutverki bæði sem þjónn og verndari réttarins, ekki síst hvað varðar

hagsmunagæslu fyrir almenning gagnvart sérhagsmunum, stórfyrirtækjum og ríkisvaldi. Lögmenn stofunnar hafa mikla reynslu af málflutningi og hafa unnið að flóknum málum á fjölmörgum réttarsviðum. Þeir búa yfir sérhæfingu á sviði mannréttinda, höfundaréttar, stjórnskipunarréttar, eignarréttar, skaðabótaréttar, samkeppnisréttar, kröfu- og samningaréttar og réttarfars. Réttur annast víðtæka hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína og veitir þeim ráðgjöf um lagalegan rétt sinn auk þess að sækja hann eða verja með samningaleiðinni þegar hún er fær en málflutningi fyrir dómstólum þegar á þarf að halda.

Eigendur stofunnar deila þeirri hugsjón að það séu grundvallarréttindi alls fólks að vera jafnt fyrir lögum og hafa aðgang að vandaðri þjónustu til þess að þekkja lögbundinn rétt sinn og standa á honum. Réttur veitir faglega og vandaða ráðgjöf á flestum sviðum lögfræðinnar. Stofan aðstoðar bæði innlend og erlend fyrirtæki, einstaklinga, félög, félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög.

Við sérhæfum okkur í eftirfarandi

Mannréttindi
Réttur byggir á þeirri grundvallarhugsjón að standa skuli vörð um mannréttindi borgaranna óháð kyni, trú, efnahag, skoðunum, þjóðerni eða stöðu þeirra að öðru leyti. Ragnar Aðalsteinsson, einn stofnenda og eigenda Réttar, hefur um árabil verið talinn helsti frumkvöðull lögmanna hér á landi hvað mannréttindavernd varðar. Réttur leggur áherslu og metnað í að varðveita þá arfleið eftir fremsta megni, og hefur stofan m.a. tekið að sér kennslu mannréttinda á háskólastigi. Réttur hefur mikla reynslu af rekstri dómsmála vegna mannréttindabrota bæði fyrir íslenskum dómstólum og Mannréttindadómstól Evrópu.
Málflutningur
Lögmenn Réttar sérhæfa sig í málflutningi fyrir dómstólum og gerðardómum, en stofan hefur árum saman verið metin í fremstu röð íslenskra lögmannstofa á þessu sviði af alþjóðlegum matsfyrirtækjum eins og „The Legal 500“ og „Chambers and Partners“ sem gera óháðar úttektir á bestu lögmannsstofum um heim allan. Sjá nánar.
Fjármuna- og fyrirtækjaréttur
Réttur hefur umtalsverða reynslu á sviði fjármuna- og fyrirtækjaréttar og hefur í gegnum tíðina komið fram fyrir hönd stórra og lítilla fyrirtækja, fjármálastofnana, fjárfestingarsjóða, atvinnufjárfesta og einstaka hluthafa. Fjármuna- og fyrirtækjaréttarteymi Réttar, sem leitt er af Sigurði Erni Hilmarssyni, hæstaréttarlögmanni og eiganda á stofunni, veitir lögfræðiráðgjöf um málefni er varða samruna, yfirtökur, kaup og sölu félaga, ágreining félaga og hluthafa, skráningu á hlutabréfamarkaði, endurskipulagningu og fjármögnun félaga, gerð áreiðanleikakannana, hagsmunagæslu fyrir hönd félaga, hluthafa og fjárfesta, samningaviðræður á þessu sviði, stofnun, breytingu og slit lögaðila, gerð samninga og annarra viðskiptalegra skjala, alþjóðleg viðskipti, aðra milliríkjagerninga og innheimtu skulda. Sjá umsagnir Legal500 og Chambers.
Fjármagnshöft og gjaldeyrismál
Réttur hefur veitt innlendum og erlendum aðilum ráðgjöf um fjármagnshöft og gjaldeyrismál allt frá innleiðingu gjaldeyrishaftanna seint á árinu 2008. Lögmenn stofunnar hafa veitt fjölda erlendra aðila ráðgjöf í tengslum við fjárfestingar þeirra á Íslandi, auk þess að veita innlendum aðilum aðstoð í samskiptum við Seðlabanka Íslands vegna kaupa á vörum og þjónustu, fjárfestinga og lántöku erlendis.
Gjaldþrotaréttur og bústjórn
Lögmenn Réttar búa yfir umfangsmikilli reynslu af umsjón þrotabúa, rekstri riftunarmála og öðrum málum tengdum gjaldþrotum einstaklinga og lögaðila. Lögmenn stofunnar hafa jafnframt víðtæka reynslu af ráðgjöf í tengslum við alþjóðlegar slitameðferðir fjármálafyrirtækja. Sjá umsagnir Legal500 og Chambers.
Hugverkaréttur
Umfangsmikil sérþekking á sviði hugverkaréttar er meðal lögmanna Réttar sem hafa unnið áratugum saman á þessu sviði með góðum árangri. Við sérhæfum okkur í meðferð og vernd hvers konar hugverka og auðkennaréttinda, s.s. ritverka, listaverka, uppfinninga, vísindarannsókna, vörumerkja og einkaleyfa. Réttur hefur meðal annars veitt Þjóðleikhúsinu, Nýlistasafninu, og Rithöfundasambandi Íslands ráðgjöf á þessu sviði, auk fjölmargra listamanna. Sjá umsagnir Legal500 og Chambers.
Verktakaréttur
Reynsla lögmanna Réttar liggur m.a. á sviði verktakaréttar og felur í sér þekkingu á þeim réttarreglum sem gilda um verktakasamninga, opinber innkaup og útboð á vörum, verkum eða þjónustu.
Eignarréttur
Réttur hefur áratugareynslu af ráðgjöf og málflutningi á sviði eignarréttar, nábýlisréttar og fasteignakauparéttar. Lögmenn stofunnar hafa flutt umfangsmikil landamerkjamál, þjóðlendumál og annars konar mál í tengslum við íhlutun hins opinbera gagnvart eignarétti einkaaðila. Þá hafa starfsmenn Réttar skrifað fræðigreinar á sviði eignarréttar.
Stjórnsýsluréttur
Réttur hefur víðtæka reynslu af rekstri stjórnsýslumála fyrir stjórnvöldum, sjálfstæðum úrskurðarnefndum og umboðsmanni Alþingis.
Verjendastörf og réttargæsla
Störf Réttar á þessu sviði byggja á því að allir sakborningar eiga rétt á réttlátri málsmeðferð, en Réttur lítur á verjendastörf sem hluta af grunnskyldum lögmanna. Sérhæfing Réttar í mannréttindum er lykilatriði á þessu sviði. Verjendastörf lögmanna Réttar hafa náð til margvíslegra og ólíkra mála, allt frá áberandi dómsmálum svo sem „Níumenningamálinu“ svonefnda í kjölfar mótmæla við Alþingishúsið og allt til fjármuna- og efnahagsbrota. Auk verjendastarfa sinnir Réttur einnig réttargæslu fyrir þolendur afbrota.
Skaðabótaréttur
Lögmenn Réttar hafa víðtæka reynslu á sviði skaðabóta- og vátryggingaréttar. Réttur aðstoðar einstaklinga við að sækja rétt sinn, s.s. vegna umferðar-, vinnu- eða frítímaslysa.
Útlendinga- og flóttamannaréttur
Sérhæfing Réttar er umfangsmikil á réttarsviðum er snúa að löggjöf um erlenda ríkisborgara, innflytjendur og hælisleitendur. Hafa lögmenn stofunnar gjarnan unnið að umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt, sem og starfað að umsóknum erlendra aðila sem hafa áhuga á að öðlast dvalar- eða atvinnuleyfi á Íslandi. Þá er réttargæsla í þágu flóttamanna verkefni sem lögmenn Réttar hafa mikla reynslu af.

Nýjustu Fréttir