Fréttir / News

Er jafnræði í sönnunarkröfum Hæstaréttar?

  |   Fréttir af stofunni

Á dögunum birtist greinin „Jafnræði og samræmi í sönnunarkröfum Hæstaréttar í þjóðlendumálum“ í tímaritinu Lögfræðingur. Höfundur hennar er Fanney Hrund Hilmarsdóttir, lögmaður á Rétti.

Niðurstöður greinarinnar eru mjög áhugaverðar með tilliti til eignarréttinda yfir landi á Íslandi. Í stuttu máli kemst Fanney að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur hafi gert mismunandi sönnunarkröfur til landeigenda á Íslandi í svokölluðum þjóðlendumálum með þeim afleiðingum að sum svæði voru talin eignarlönd, í eigu bænda og annarra landeigenda, á meðan að önnur sambærileg svæði voru talin þjóðlendur og þar með í eigu ríkisins. Af niðurstöðunum að dæma virðast sumir landeigendur á Íslandi hafi orðið umtalsvert verr úti en aðrir við úrlausnir svokallaðra þjóðlendumála. Niðurstöðuna verður að meta í því ljósi að eignarréttindi eru friðhelg samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Við úrlausn mála sem varða eignarréttindi er því sérstaklega mikilvægt að dómstólar gæti jafnræðis og samræmis.

Efni greinarinnar byggir á rannsókn á öllum dómum Hæstaréttar í þjóðlendumálum á tímabilinu frá 21. október 2004 (fyrstu þjóðlendudómum Hæstaréttar) til 29. september 2011 og er unnið upp úr meistararitgerð Fanneyjar.

Greinin mun birtast í næsta tölublaði Lögfræðings og hægt er að nálgast hana með því að smella hér.