Fréttir / News

Fjölskyldu dæmdar 8 milljónir í miskabætur

  |   Fréttir af stofunni

Fjögurra manna fjölskylda hafði betur gegn Reykjavíkurborg í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í máli sem sneri að skaðabótum vegna ólögmætrar málsmeðferðar í barnaverndarmáli. Málið á rætur að rekja til þess að sumarið 2013 var yngra barn foreldranna vistað utan heimilis í fjóra mánuði af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur þegar grunur vaknaði um að það væri með svokallað shaken baby syndrome. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmenn á Rétti, fluttu málið fyrir héraðsdómi.

Héraðsdómur, sem var fjölskipaður með embættisdómara, lækni og sálfræðingi, komst að þeirri niðurstöðu að fyrstu aðgerðir barnaverndarnefndar í málinu hefðu verið réttmætar og nauðsynlegar en að eftir að stefnendur lögðu fram vottorð frá barnalækni níu dögum eftir atvikið, um það að veigamikla hluta af shaken baby heilkenninu vantaði, hefði rannsókn barnaverndarnefndar farið úrskeiðis. Barnavernd hafi brugðist skyldu sinni við rannsókn málsins, meðal annars með því að treysta á lögreglurannsókn málsins í stað þess að framkvæma fullnægjandi könnun á grundvelli 22. gr. barnaverndarlaga. Málsmeðferðin þótti handahófskennd, athuganir ekki skráðar með viðunandi hætti og látið var hjá líða að ræða við eldra barnið sem varð vitni að atvikum. Framangreint þótti hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn fjölskyldunni, í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og voru þeim dæmdar 2 milljónir krónur hverju í miskabætur. Þá var einnig dæmt að Reykjavíkurborg bæri ábyrgð á varanlegu tjóni sem móðirin varð fyrir vegna málsins.

Ríkisútvarpið, Vísir og Fréttablaðið hafa þegar fjallað um dóminn og þá var Sigrún Ingibjörg til viðtals í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Sigrún og Auður Tinna voru einnig í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 eftir aðalmeðferð málsins. Reykjavíkurborg hefur fjórar vikur til að ákveða hvort málinu verði áfrýjað.