Fréttir / News

Fullnaðarsigur í lögbannsmálinu

  |   Fréttir af stofunni

Hæstiréttur Íslands kvað upp þann dóm í morgun að Útgáfufélagið Stundin og Reykjavík Media skyldu sýknuð af kröfum Glitnis HoldCo í títtræddu lögbannsmáli. Var niðurstaða bæði Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur þannig staðfest, en áður hefur verið fjallað um fyrri dómana og málflutning í málinu á heimasíðu Réttar. Mbl.is, Fréttablaðið, Kjarninn, DV, Vísir og RÚV hafa þegar greint frá niðurstöðu dómsins.

Niðurstaða Hæstaréttar var tvíþætt. Annars vegar hafnaði rétturinn kröfu Glitnis um að blaðamönnunum yrði gert skylt að svara tilteknum spurningum um heimildir sínar fyrir fréttaumfjölluninni. Um þetta segir í dómnum:

„Forsenda fyrir því að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annarra. Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi, sbr. dóm Hæstaréttar 16. júní 2014 í máli nr. 403/2014.“

Hins vegar hafnaði rétturinn varakröfu áfrýjanda um að viðurkennt yrði að fjölmiðlunum skyldi vera óheimilt að birta fréttir eða aðra umfjöllun sem byggð er á eða unnin upp úr gögnunum. Í dómnum segir um þetta:

„Hvað varðar fréttaumfjöllun stefndu verður að hafa í huga stöðu þeirra beggja sem fjölmiðla og það hlutverk sem þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi sem slíkir. Þá verður jafnframt að líta til þess sem áður greinir varðandi væntanlegar alþingiskosningar, sem og þess að um er að ræða umfjöllun um viðskiptasamband eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar við einn af þremur stærstu viðskiptabönkum landsins, í aðdraganda þeirra atburðarrásar sem lauk með því sem kallað hefur verið hið íslenska bankahrun haustið 2008. Eðli máls samkvæmt hefur öll opinber umræða undanfarin ár litast mjög af þeim atburðum og meðal annars lotið að því að greina orsakir þeirra og eftirmála. Í ljósi þeirra stórfelldu almennu áhrifa sem bankahrunið hafði á íslenskt samfélag er og eðlilegt að slíkt uppgjör fari fram á grundvelli opinberrar fréttaumfjöllunar og þeirrar almennu umræðu sem henni að jafnaði fylgir. Verður að líta svo á að umfjöllun stefndu um viðskipti þáverandi forsætisráðherra sé liður í því uppgjöri og eigi sem slík erindi við almenning.“

Fyrir Héraðsdómi fluttu Sigríður Rut Júlíusdóttir og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, tveir af eigendum Réttar málið og flutti Sigríður Rut málið fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Þykir ánægjulegt að eins og hálfs árs vegferð þessa máls fyrir innlendum dómstólum sé nú lokið með grundvallardómi um tjáningarfrelsið.