Fréttir / News

Sigríður Rut Júlíusdóttir

Hæstiréttur vísar í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í nýlegu meiðyrðamáli

  |   Fréttir af stofunni

Þann 20. nóvember 2014 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 214/2014 Egill Einarsson gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni en þar var Ingi sýknaður af öllum kröfum Egils, þ.m.t. ómerkingarkröfu þar sem ummæli Inga “Fuck You Rapist Bastard” voru talin vera gildisdómur.  Einnig vísaði Hæstiréttur til þess að áfrýjandi (Egill), sem er þjóðþekkt persóna, hefði sjálfur tjáð sig á opinberum vettvangi þar sem gagnrýni hans beindist gegn nafngreindum einstaklingum, gjarnan konum, og í sumum tilvikum mátti skilja orð hans svo að hann hvetti beinlínis til kynferðislegs ofbeldis gagnvart þeim. Taldi Hæstiréttur að áfrýjandi þyrfti að axla ábyrgð á því efni sem hann lætur frá sér fara, óháð því hvaða nafni hann kýs að kalla sig, Egil eða Gillzenegger. Hæstiréttur tók fram að í blaðaviðtali í Mónitor, sem varð tilefni ummæla stefnda (Inga), hafi Egill viðhaft ögrandi og niðrandi ummæli um aðra, þar á meðal stúlku sem hafði kært hann fyrir kynferðisbrot gegn sér. Þar með hafi Egill sjálfur hrundið af stað þjóðfélagsumræðu og mátti jafnframt gera sér ljóst að ummæli hans kynnu að kalla á hörð viðbrögð frá þeim sem höfðu andúð á áðurgreindum viðhorfum hans. Ummæli stefnda “Fuck you rapist bastard” í garð áfrýjanda voru í þessu samhengi talin vera gildisdómur og því heimil tjáning. Tók Hæstiréttur fram að ummælin væru fúkyrði í garð áfrýjanda í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu sem áfrýjandi hefði sjálfur átt frumkvæðið að. Ummælin væru þannig gildisdómur en ekki staðhæfing um að hann hafi gerst sekur um nauðgun. Í því sambandi taldi Hæstiréttur að meðal annars skipti máli að stefndi hélt því ekki fram að áfrýjandi hefði brotið þannig af sér gegn einhverjum öðrum, nafngreindum eða ónafngreindum. Þ.e. fúkyrðin “Fuck you rapist bastard” væru ekki í raun ásökun um að hafa nauðgað tilteknum einstaklingi.

Hæstiréttur komst síðan í raun að annarri niðurstöðu mánuði síðar í málinu nr. 215/2014 Egill Einarsson gegn Sunnu Ben Guðrúnardóttur. Þar voru ummæli ómerkt en sýknað af öllum öðrum kröfum áfrýjanda (Egils). Þar voru ummælin talin sértækari í því samhengi sem þau voru sett fram og í þeim vísað til þeirra nauðgunarkæra sem fram höfðu komið á hendur Agli. Aftur tiltekur Hæstiréttur að áfrýjandi (Egill) hafi sjálfur átt frumkvæðið að þjóðfélagsumræðunni um nauðganirnar og að hann verði að bera ábyrgð á hatursfullri orðræðu sinni í garð kvenna, sem rétturinn taldi að fæli jafnvel í sér í sumum tilvikum, hvatningu til að beita konur kynferðislegu ofbeldi. Með vísan til samhengis ummæla gagnáfrýjanda (Sunnu) töldust þau þó, ólíkt fúkyrðum Inga, vera staðhæfing um staðreynd, þ.e. að áfrýjandi hefði gerst sekur um að nauðga tiltekinni stúlku sem hafði kært hann fyrir nauðgun. Af þeirri ástæðu voru ummælin ómerkt. Áfrýjandi hafði þó gert mun fleiri kröfur á hendur gagnáfrýjanda í málinu, þ.e. hann krafðist ómerkingar ummæla, miskabóta, birtingarkostnaðar, refsingar og málskostnaðar. Gagnáfrýjandi var sýknuð af öllum öðrum kröfum áfrýjanda. Sýknað var af refsikröfu í málinu enda ósannað að ummælin hafi verið sett fram gegn betri vitund. Um það segir í dóminum: “Skilja verður málatilbúnað gagnáfrýjanda á þann veg að hún telji sig hafa haft ástæðu til að ætla, í ljósi þess hatursáróðurs sem hún kveður aðaláfrýjanda hafa staðið fyrir gegn ýmsum hópum, svo sem konum, að hann hafi gerst sekur um það brot gegn A sem hann hafði verið kærður fyrir, enda stóðu þar orð kærandans gegn orðum aðaláfrýjanda.” Að auki vísaði Hæstiréttur til 3. mgr. 73. gr. Stjórnarskrár, með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf, og sýknaði gagnáfrýjanda af öllum öðrum kröfum aðaláfrýjanda, þ.m.t. miskabótakröfu, birtingarkostnaðarkröfu og málskostnaðarkröfu.

Athygli vekur í þessum seinni dómi Hæstaréttar að rétturinn vísar sérstaklega til tveggja dómafordæma frá Mannréttindadómstól Evrópu sem voru meðal fjöldamargra dómatilvísana til dóma Mannréttindadómstólsins sem lögmaður gagnáfrýjanda hafði vísað til í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti. Þykir það tíðindum sæta í málum sem varða tjáningarfrelsið að Hæstiréttur Íslands sé nú í textum dóma sinna beinlínis farinn að tileinka sér þá aðferðafræði að vísa í rökstuðningi sínum til tiltekinna fordæma Mannréttindadómstólsins.