Fréttir / News

Hjúkrunarfræðingi veitt starfsleyfi eftir átta ára baráttu

  |   Fréttir af stofunni

Talsvert hefur verið fjallað um heimild erlendra einstaklinga til að sinna störfum í heilbrigðisþjónustu hér á landi á undanförnum misserum. Það var því fréttnæmt þegar pólskum hjúkrunarfræðing var veitt starfsleyfi eftir átta ára baráttu fyrir slíkum rétti. Lögmaður umrædds einstaklings er Kári Hólmar Ragnarssonar hdl., einn af eigendum Réttar lögmannsstofu.

Eins og fram kemur í umfjöllun Fréttablaðsins um málið úrskurðaði velferðarráðuneytið að Landlæknisembættið væri skyldugt til þess að veita einstaklingnum sem er pólskur ríkisborgari starfsleyfi, þrátt fyrir að ráðuneytið hefði við fyrra tilefni komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingurinn sem um ræðir uppfyllti ekki viðmið um menntunarstig. Eftir að hafa fengið staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu frá velferðarráðuneytinu leitaði umræddur einstaklingurinn eftir liðsinni Réttar. Var ákvörðuninni í kjölfarið snúið við.

Stjórnvöld eru bundin af málshraðareglu og rannsóknarreglu sem, eins og nöfnin gefa til kynna, gera þá kröfu að málum sé lokið eins fljótt og hægt er en auk þess beri stjórnvöld skyldu til þess að rannsaka mál sem borin eru upp við þau. Þá ætti að vera óþarfi fyrir einstaklinga að ráða sér lögmann til þess að leggja fram umsóknir af þessu tagi. Réttur telur að því miður hafi stjórnvöld brugðist í þessu máli enda hafi konan uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði strax á árinu 2007. Þar að auki var málið í um eitt ár í kærumeðferð ráðuneytisins áður en niðurstaða fékkst í júlí 2015.
Ef Ísland ætlar sér að taka þátt í hinum samevrópska vinnumarkaði fyrir sérfræðinga – hvað þá að leita sérstaklega eftir erlendum hjúkrunarfræðingum  – er ljóst að úrbóta er þörf í málsmeðferð viðkomandi stofnana.