Fréttir / News

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir (RÚV)

Lögmenn Réttar fjalla um málefni flóttamanna

  |   Fréttir af stofunni

Tveir lögmenn Réttar héldu framsögur á fundum um málefni flóttamanna í vikunni. Á mánudaginn 2. nóvember, var Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hdl. með erindi um flóttamenn og réttinn til hælis á fundi Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands sem fram fór í Norræna húsinu. Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri á hælissviði hjá Útlendingastofnun gerði á sama fundi grein fyrir íslenska lagaumhverfinu og framkvæmd og starfsemi Útlendingastofnunar. Hrefna og Skúli sátu síðan í panel ásamt Líneik Önnu Sævarsdóttur þingkonu, Arndísi A. K. Gunnarsdóttur lögfræðingi hjá Rauða krossinum og Guðbjörgu Ottósdóttur, aðjúnkt við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Bogi Ágústsson, fréttamaður á RÚV. Fundurinn var fjölsóttur og sköpuðust athyglisverðar umræður m.a. framtíð Evrópusamvinnu á sviði flóttamannaréttar, málefni barna á flótta og mismunandi aðbúnað viðurkenndra flóttamanna eftir því hvort flóttamenn komi hingað til lands sem kvótaflóttamenn eða í gegnum hæliskerfið.

Fréttir um fundinn má finna m.a. hér og hér.

Þann 4. nóvember hélt Katrín Oddsdóttir hdl., lögmaður á Rétti, svo erindi á málfundi Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík um málefni flóttamanna. Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, var hinn frummælandi fundarins og voru þær Katrín sammála um að mikilvægt væri að jafna réttarstöðu kvótaflóttamanna annars vegar og hins vegar þeirra hælisleitenda sem fá stöðu flóttamanna á Íslandi eftir umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Er síðarnefndi hópurinn í mun verri stöðu hvað efnahagsleg og félagsleg réttindi varðar. Fundurinn var mjög vel sóttur og tóku fundargestir til máls og margir hverjir skoruðu á ráðherrann að beita sér fyrir að fleira fólki yrði veitt vernd hér á landi og betur yrði staðið að málefnum flóttamanna á Íslandi. Ráðherrann sagði að ekki væri um átaksverkefni að ræða heldur stefnu til langs tíma þess efnis að Ísland myndi taka ábyrgð og beita sér fyrir því að veita flóttamönnum vernd og aðstoð hér á landi.

Þá fjallaði Fréttablaðið, þann 5. nóvember 2015, um ákvarðanir innanríkisráðuneytisins að synja hælisleitendum um gjafsókn í málum sem viðkomandi vilja höfða til ógildingar á ákvörðunum um brottvísanir frá landinu. Í fréttinni er viðtal við Katrínu Oddsdóttur hdl. sem segir að um alvarlega stefnubreytingu sé að ræða. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.