Fréttir / News

Nýjar vísbendingar í Geirfinnsmáli

  |   Fréttir af stofunni

Í fréttatíma Sjónvarpsins í gærkvöldi var rætt við Ragnar Aðalsteinsson um nýjar vísbendingar vegna endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Vísbendingarnar tengjast bréfi sem Sævar Marínó Ciesielski skrifaði saksóknara um fjarvistir sínar kvöldið sem Geirfinnur Einarsson hvarf. Bréfið var sent á meðan langri gæsluvarðhaldsvist Sævars stóð, um þremur árum eftir hvarf Geirfinns.

Í bréfinu lýsir Sævar sjónvarpsþætti sem hann segist hafa horft á umrætt kvöld á ítarlegan hátt. Blaðamaðurinn Jón Daníelsson skoðaði umræddan sjónvarpsþátt þegar ljóst var að hann var aðgengilegur á netinu og komst að því að lýsingar Sævars á þættinum samræmast efni hans vel.

Ragnar Aðalsteinsson telur að þar sem Sævar hafi verið í einangrunarvist í gæsluvarðhaldi sínu sé afar ólíklegt að hann hafi getað nálgast upplýsingar um efni þáttarins eftir öðrum leiðum. Hljóti hann því að hafa séð þáttinn og styðji þetta að hann og aðrir sakborningar hafi ekki getað verið í Keflavík og hitt Geirfinn umrætt kvöld.

„Nú er auðvitað eingöngu verið að fjalla um hvort að skilyrði endurupptökumálsins séu fyrir hendi og þetta er auðvitað gríðarlega þungvægt í þá átt“, sagði Ragnar í viðtali í fréttatíma í gær.

Ragnar  hefur sent endurupptökunefnd ítarlegar upplýsingar um málið.

Fréttina og viðtalið við Ragnar má sjá á hér (hefst á 01:18).

Aðrir tenglar um efnið:
Frétt RÚV um vísbendingarnar, 2. ágúst 2016
Frétt mbl.is um vísbendingarnar, 2. ágúst 2016
Frétt mbl.is um stöðu málsins fyrir endurupptökunefnd, 26. júlí 2016