Fréttir / News

Persónuvernd féllst á röksemdir Báru

  |   Fréttir af stofunni

Persónuvernd hefur birt úrskurð í máli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gegn Báru Halldórsdóttur.

Niðurstaða Persónuverndar er sú að þrátt fyrir að upptaka Báru á veitingastaðnum Klaustri þann 20. nóvember 2019 sé talin varða við persónuverndarlög er fallist á skýringar hennar um það afhverju hún hafi tekið samtalið upp og að þegar litið sé til tilgangsins, kringumstæðna og dómafordæmis um tjáningarfrelsi skuli henni ekki gerð sekt. Í úrskurðinum segir:

„… verður einnig að líta til þeirra skýringa sem komið hafa fram af hálfu Báru Halldórsdóttur að hún hafi tekið umræddar samræður upp þar sem hún hafi talið ummæli í þeim hafa þýðingu í ljósi stöðu þátttakenda í þeim sem þingmanna, sem og að hún hafi verið stödd á Klaustri fyrir tilviljun. Þá hafa samræðurnar orðið tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinni fulltrúa, auk þess sem rannsókn málsins, sbr. ákvörðun Persónuverndar í máli þessu, dags. 29. apríl 2019, hefur ekki, með þeim úrræðum sem stofnunni eru búin, leitt í ljós einhvers konar samverknað sem til þess væri fallinn að hafa íþyngjandi áhrif, né heldur skapað forsendur til að taka afstöðu af eða á til réttmætis áðurnefndra skýringa.“

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson, lögmenn Réttar, sem hafa gætt hagsmuna Báru í málinu, gerðu grein fyrir úrskurðinum í tíufréttum Ríkisútvarpsins í fyrradag og kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Þar kom m.a. fram að Bára væri nokkuð sátt við niðurstöðuna en að hún væri þreytt vegna málsins.

Áður hefur verið fjallað um Klaustursmálið og meðferð þess fyrir dómi á heimasíðu Réttar, sjá hér.