Fréttir / News

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs skýrari eftir úrskurð

  |   Fréttir af stofunni

Í sumar kvað kærunefnd jafnréttismála upp úrskurð nr. 1/2018 í máli Eyglóar Amelíu Valdimarsdóttur, umbjóðanda Réttar, gegn FISK Seafood ehf. Úrskurðurinn er merkilegur þar sem með honum er í fyrsta sinn kveðið á um skyldur atvinnurekenda samkvæmt 21. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í ákvæðinu segir:

„Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.“

Í hnotskurn snerist ágreiningur málsaðila um hvort það að fyrirtækið hafnaði beiðni kæranda um að starfa tímabundið í lækkuðu starfshlutfalli að loknu fæðingarorlofi hafi staðist jafnréttislög. Ósk kæranda byggði á því að barn hennar gat aðeins fengið dagvistun í sex klukkustundir á dag. Eftir fund málsaðila skömmu áður en fæðingarorlofi lauk var ljóst að lausn fyndist ekki á því að kærandi gæti hafið störf með þeim hætti sem ætlað var.

Niðurstaða kærunefndar í málinu var eftirfarandi:

„verður að telja það hafa staðið kærða sem atvinnurekanda nær en kæranda að koma með tillögu um það með hvaða móti unnt væri að koma til móts við hana með tímabundnum aðgerðum, svo sem hlutastarfi, tilfærslu á vinnutíma, vinnu utan starfsstöðvar, eða ámóta ráðstöfunum, til að kæranda væri unnt að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Hér ber að hafa í huga að atvinnurekandi sambúðarmaka mun hafa lýst yfir vilja til að veita honum tiltekinn sveigjanleika í vinnutilhögun og hefðu því báðir atvinnurekendur lagt nokkuð af mörkum hefði kærði brugðist við. Kærði verður að bera hallann af því að hafa ekki leitast við að bregðast við með þeim hætti sem hér var lýst og braut með því gegn 21. gr. laga nr. 10/2008.“

Að fengnum úrskurði luku aðilar málinu með samkomulagi. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmenn Réttar sáu um málið fyrir hönd kæranda.