Fréttir / News

Þing Evrópusambandsins krefst þess að trúnaður lögmanna og skjólstæðinga þeirra njóti friðhelgi

  |   Fréttir af stofunni

Í kjölfar máls sem upp kom í Hollandi á dögunum hefur mikið verið fjallað um lagalega vernd trúnaðarsambands lögmanna og skjólstæðinga þeirra í Evrópu. Málið sem um ræðir snérist um að hollensk lögmannsstofa hefði sætt njósnum af hálfu hollensku leynilögreglunnar árum saman. Í kjölfarið var vakið máls á þeirri spurningu á þingi Evrópusambandsins hvort boðlegt væri að slík samskipti sættu hlerunum í ríkjum sambandsins og hvaða skref mætti taka til að vernda trúnaðarsamband lögmanna og skjólstæðinga þeirra.

Við skoðun af hálfu hagsmunasamtaka evrópskra lögfræðinga kom í ljós að samtöl á milli lögmanna og skjólstæðinga hefðu verið hleruð af lögreglu og leyniþjónustum í Frakklandi, Bretlandi, Írlandi, Tékklandi og Lettlandi. Vakti þessi niðurstaða þungar áhyggjur þingmanna ESB sem kröfðust aðgerða.
Ekki fyrirfinnst samevrópsk löggjöf um söfnun persónulegra upplýsinga sé tilgangur söfnunarinnar grundvallaður á þjóðaröryggi. Í Lissabonsáttmálanum segir þvert á móti að þjóðaröryggismál heyri undir ábyrgðarsvið aðildarríkjanna sjálfra. Öll ríkin hafa einhvers konar löggjöf sem ætlað er að vernda umrædd trúnaðarsamskipti lögmanna og skjólstæðinga þeirra en mjög erfitt er að meta hvort slíkri löggjöf sé fylgt í ljósi þess að um leynilegar ráðstafanir, á borð við hlerun, er að ræða. Bæði Mannréttindadómstóll Evrópu og Evrópudómstóllinn hafa þó komist að þeirri niðurstöðu að slík vernd skuli vera til staðar.
Í ljósi mikilvægis þess að trúnaðarsamband lögmanna og skjólstæðinga sé virt mælti þing Evrópuráðsins sterklega með því að komið væri upp eftirlitskerfi með aðildarríkjum hvað þetta varðar. Þá var um það rætt hvort þörf væri á sérstakri löggjöf á sviði Evrópuréttar á þessu sviði.
Lesa má nánar um málið hér