Claudie Wilson með erindi við þingsetningu
Í gær, 14. desember 2017, flutti Claudie Ashonie Wilson hdl., einn af lögmönnum Réttar hugvekju fyrir þingsetningu 148. löggjafarþings Alþingis. Þetta var í 11. skiptið sem Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur boðið þingmönnum upp á heimspekilega hugvekju sem valkost við að hefja störf þings með því að hlýða á messu í Dómkirkjunni.
Um 13 þingmenn frá Samfylkingunni, Vinstri grænum, Viðreisn og Pírötum ásamt mökum og öðrum góðum gestum hlýddu á erindi Claudie, sem hún flutti í Iðnó. Erindið bar nafnið „Jafnréttishugtakið í fjölmenningarlegu samfélagi“ og fjallaði meðal annars um breyttar áherslur í jafnréttismálum með tilkomu nýs stjórnarsáttmála. Eitt af því sem Claudie fjallaði sérstaklega um er minni áhersla hins nýja stjórnarsáttmála á málefni útlendinga og innflytjenda. Um þetta sagði hún:
„Þegar síðustu tveir stjórnmálasáttmálar eru bornir saman, þá er ekki hjá því komist að velta því fyrir sér hvort að til þess að jafnréttisstefna ríkisins endurspegli samfélagið í heild, þurfi til þingmenn sem eru af erlendum uppruna?“
Lesa má hugvekju Claudie hér.
Vísir.is hefur fjallað um hugvekjuna í dag og má lesa þá frétt hér.