Fréttir / News

Héraðsdómur dæmdi Stundinni og Reykjavík Media í vil

  |   Fréttir af stofunni

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm í hádeginu í dag í umtöluðu lögbannsmáli Glitnis HoldCo, Stundarinnar og Reykjavík Media. Niðurstaða dómsins var að hafna kröfu Glitnis um staðfestingu lögbannsins sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning fjölmiðlanna í október 2017.

Við aðalmeðferð málsins í janúar var m.a. tekist á um sjónarmið um friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi fjölmiðla. Í niðurstöðu dómsins var tjáningarfrelsið látið vega þyngra af þessu tvennu og segir í dómnum að í umfjöllun fjölmiðlanna hafi ekki verið „gengið nær einkalífi þeirra einstaklinga sem um ræddi en óhjákvæmilegt hefði verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðaði almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa“.

Þá var ekki heldur fallist á málsástæður Glitnis um að líta yrði til þess að gögnin sem fjölmiðlarnir hefðu væru undirorpin bankaleynd og að líta yrði til þess hvernig gögnin komust í hendur fjölmiðlanna.

Ýmsar fréttir hafa birst um dóm héraðsdóms í dag, m.a. á RÚV.is, mbl.is, Vísi, Kjarnanum, Hringbraut og Stundinni.

Áður hefur verið fjallað um málið á heimasíðu Réttar, sjá hér og hér. Líkt og fyrr segir fluttu Sigríður Rut Júlíusdóttir og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, tveir af eigendum Réttar, málið fyrir hönd fjölmiðlanna.

Uppfært: Þann 5. október 2018 staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms.