Sigurður Örn ritari stjórnar LMFÍ
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti og einn af eigendum Réttar var kjörinn varamaður í stjórn Lögmannafélags Íslands á aðalfundi þess þann 25. maí síðastliðinn. Sigurður mun gegna hlutverki ritara stjórnar LMFÍ og hefur tekið fast sæti Ástráðs Haraldssonar í aðalstjórn, en hann var skipaður héraðsdómari fyrr á árinu.
Aðrir meðlimir nýrrar stjórnar Lögmannafélagsins eru Heiðrún Jónsdóttir, Hjördís Harðardóttir, Stefán A. Svensson og Berglind Svararsdóttir, formaður. Mbl.is greindi frá því nýlega að Berglind er einungis önnur konan sem gegnt hefur hlutverki formanns í 107 ára sögu félagsins en Þórunn Guðmundsdóttir, lögmaður var formaður fyrir rúmum 20 árum.
Sigurður er annar lögmanna Réttar sem hefur tekið sæti í stjórn Lögmannafélagsins, en Ragnar Aðalsteinsson var í stjórn á árunum 1974 til 1976 og aftur á árunum 1992 til 1995 þegar hann gegndi formennsku.