Fréttir / News

Lögmenn Réttar í Klaustursmáli

  |   Fréttir af stofunni

Tveir af lögmönnum Réttar, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson, eigandi, hafa undanfarna daga verið talsvert í fréttum vegna aðkomu þeirra að Klaustursmálinu svokallaða sem hefur vakið verðskuldaða athygli hérlendis og erlendis.

Lögmennirnir voru fyrst í viðtali hjá Ríkisútvarpinu vegna vitnamálsins sem fjórir þingmenn Miðflokksins höfðuðu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í viðtalinu var rætt um þá stöðu að almennt sé óheimilt að taka upp samtöl fólks án vitundar þess, en þó séu undantekningar frá öllum reglum, svo sem dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum uppljóstrara sýni. Í viðtalinu sagði Ragnar:

„Þetta eru lýðkjörnir þingmenn sem eru að tala saman og þeir tala með þeim hætti að það er spurning hvort almenningur hafi ekki átt rétt á því að vita hvernig þeir töluðu, og um hvað þeir töluðu. Og jafnvel spurning hvort það hafi verið skylt, þeim sem voru á veitingastaðnum og heyrðu þetta, að upplýsa um það til fjölmiðla og láta þá fjölmiðla um að taka málið áfram, eða láta það niður falla.“

Málflutningur vegna vitnamálsins fór fram mánudaginn 17. desember sl. og flutti Auður málið fyrir hönd uppljóstrarans Báru Halldórsdóttur. Nokkuð ítarlega er greint frá málflutningnum í frétt RÚV. Mikill fjöldi fólks hafði safnast saman í héraðsdómi til að sýna Báru stuðning, líkt og myndband Mbl.is sýnir.

Tveimur dögum síðar greindi Stundin frá því að dómari hefði þegar kveðið upp úrskurð og hafnað kröfum þingmannanna. Þingmennirnir kærðu úrskurðinn samdægurs til Landsréttar. Frestur til að skila greinargerð í málinu hefur verið gefinn til 9. janúar nk. Að vitnamálinu frágengu kunna þingmennirnir að höfða einkarefsimál, svo sem málshöfðun þeirra gefur í skyn.

Þá hefur Persónuvernd greint frá því að málið hafi verið tekið fyrir þar, að beiðni þingmannanna og Báru sé gefinn frestur til 11. janúar til að skila athugasemdum í málinu.

Áhugavert verður að fylgjast með með framgangi málsins á nýju ári.