Einn hæstaréttarlögmaður og tveir héraðsdómslögmenn
Þrír starfsmenn Réttar lögmannsstofu hafa aflað sér aukinna málsflutningsréttinda nú á vormisseri.
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður hjá Rétti til margra ára og jafnframt einn af eigendum stofunnar, lauk í febrúar tilskyldum fjölda prófmála fyrir Hæstarétti og fékk í framhaldinu útgefið leyfi til að starfa sem hæstaréttarlögmaður.
Sigurður er 33 ára og hefur unnið á Rétti frá árinu 2009. Í starfi sínu hefur hann sinnt fjölbreyttum lögfræðilegum verkefnum, meðal annars á sviði alþjóðlegs fyrirtækjaréttar, mannréttinda og verjendastarfa.
Sigurður er þriðji hæstaréttarlögmaður Réttar og hefur hann þannig slegist í hópinn með Sigríði Rut Júlíusdóttur og Ragnari Aðalsteinssyni.
Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Páll Bergþórsson, sem hafa bæði starfað á Rétti frá haustinu 2015, sóttu í vor námskeið til öflunar héraðsdómslögmannsréttinda og luku því með góðum árangri.
Auður er 24 ára og útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands haustið 2016 eftir að hafa skrifað meistararitgerð á sviði alþjóðlegra mannréttinda, sem er réttarsvið sem hún hefur mikinn áhuga á.
Páll er 27 ára og útskrifaðist frá lagadeild Háskólans í Reykjavík sumarið 2016 eftir að hafa skrifað meistararitgerð á sviði refsiréttar og sakamálaréttarfars, en þau eru á meðal hans eftirlætis réttarsviða.
Samstarfsfólk Sigurðar, Auðar og Páls á Rétti óskar þeim innilega til hamingju með þessa áfanga þeirra.