Freyja Haraldsdóttir sigraði í Landsrétti
Landsréttur kvað rétt eftir kl. 14 í dag upp dóm í máli Freyju Haraldsdóttur gegn Barnaverndarstofu.
Í júní hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfum Freyju um að felldur skyldi úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá 6. júní 2016, sem staðfesti ákvörðun Barnaverndarstofu frá 19. nóvember 2015 um synjun á umsókn hennar um að taka barn í fóstur.
Landsréttur sneri þessari niðurstöðu hins vegar við í dag í réttarskapandi dómi um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og jafnræðis- og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.
Í dómnum segir:
„Verður því að telja að með því að hafna umsókn áfrýjanda þegar á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki almenn skilyrði samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar án þess að gefa henni kost á að sækja námskeið samkvæmt 9. gr. hafi áfrýjanda verið mismunað vegna fötlunar.
Á stefnda hvíldi sú skylda að gæta þess við afgreiðslu á umsókn áfrýjanda um fósturleyfi að ekki væri á hana hallað vegna fötlunar, sbr. jafnræðisreglur stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.“
Þá segir einnig:
„…stefndi gat ekki með réttu litið svo á þegar hann synjaði umsókn áfrýjanda 19. nóvember 2015 að hún uppfyllti ekki áskildar kröfur eins og þær eru settar fram í 6. og 10. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt þessu var slíkur annmarki á rannsókn málsins og undirbúningi þeirrar ákvörðunar að rétt þykir að taka dómkröfu áfrýjanda til greina.“
Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, einn af eigendum Réttar, flutti málið fyrir Landsrétti og fluttu hún og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður, málið fyrir héraðsdómi.