Hrefna Gunnarsdóttir í flóttamannabúðum á Lesvos
Haustið 2016 var Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hdl., lögmaður hjá Rétti, valin úr hópi ellefu íslenskra umsækjenda til að starfa í flóttamannabúðunum Moria á eyjunni Lesvos í Grikklandi. Dvöl Hrefnu varði í þrjár vikur.
Verkefnið var á vegum samtakanna European Lawyers in Lesvos, sem Samtök evrópskra lögmannafélaga (CCBE) og þýska lögmannafélagið standa fyrir. Samtökin sjá til þess að á hverjum tíma séu að jafnaði þrír lögmenn í búðunum. Helstu verkefni lögmannanna eru að undirbúa fólk undir hælisviðtal, aðstoða það við að safna saman sönnunargögnum og aðstoða við fjölskyldusameiningar.
Um þetta spennandi verkefni segir Hrefna:
„Mér fannst frábært að sjá hvað þetta litla verkefni gerir mikið gagn. Það sem maður hræðist við öll svona verkefni er að verið sé að leggja fjármuni og tíma sem skili sér ekki beint til þeirra sem verkefnið á að þjónusta. Mér fannst það ekki vera raunin hér, þvert á móti finnst mér verkefnið hafa náð að sníða sér stakk eftir vexti og vera að beinu gagni fyrir fólkið í búðunum þrátt fyrir t.d. að lögmenn komi og fari á stuttum tíma.”
Lögmannablaðið hefur tekið viðtal við Hrefnu af þessu tilefni. Fréttina má lesa hér, frá og með blaðsíðu 24.