Hver á að gæta varðanna? – Sigurður Örn í útvarpsviðtali um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu
Sigurður Örn Hilmarsson, einn af eigendum Réttar og formaður Lögmannafélags Íslands, var í viðtali hjá Morgunútvarpinu á Rás 2 í síðastliðinni viku og fjallaði um drög að frumvarpi um afbrotavarnir og rafræna vöktun lögreglu sem dómsmálaráðherra hefur kynnt til umsagnar. Hulda Geirsdóttir og Snærós Sindradóttir tóku viðtalið.
Sigurður greindi svo frá efni frumvarpsins:
„Þetta eru drög að frumvarpi sem að mæla fyrir um heimild til þess að starfrækja sérstaka greiningardeild til þess að rannsaka landráð sem brot, brot gegn æðstu stjórnvöldum og hryðjuverkastarfsemi og annað slíkt og reka miðlægan gagnagrunn í því tilliti. Svo er verið að færa í lög heimild lögreglustjóra til að gefa fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast […] og svo þriðji þátturinn eru þessar afbrotavarnir.
Og það er mjög almenn heimild til þess að sinna í raun og veru rafrænni vöktun, oft þá á almannafæri eða stöðum sem almenningur hefur aðgang að og þá er, eins og má lesa af drögunum, hugsunin aðallega þessi rafræna vöktun og við þekkjum það erlendis frá að það eru til myndavélakerfi sem að geta greint bílnúmer og í Kína eru myndavélar sem að geta greint andlit og gervigreindin getur þannig rakið í raun og veru ferðir fólks um almannarýmið.“
Fram kom af hálfu Sigurðar að ávallt þyrfti að gæta jafnvægis milli borgaralegra réttinda og möguleikum lögreglu til þess að koma í veg fyrir afbrot. Þá fjallaði Sigurður um mikilvægi þess að kveðið væri skýrar á um eftirlit með þessum aðgerðum lögreglu svo tryggt sé að réttmæti aðgerðanna geti sætt endurskoðun. Mikilvægt sé að þeirri spurningu verði svarað hver eigi að gæta varðanna.
Þá fjallaði Sigurður einnig stuttlega um dönsk lög um afbrotavarnir og forvirkar rannsóknarheimildir frá 2014, en þar er aðgerðunum markaður nokkuð skýrari rammi og eftirlit með aðgerðum tryggt af sjálfstæðum eftirlitsaðila.
Hlusta má á viðtalið við Sigurð hér.