Hæstiréttur 100 ára: Jafnrétti og fjölbreytni við skipun dómara
Síðastliðinn sunnudag var haldið upp á 100 ára afmæli Hæstaréttar Íslands, bæði með hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu og á árshátíð Orators, félags laganema. Í tilefni af hinu síðarnefnda gaf Orator út sérstakt hátíðarrit og voru nokkrir aðilar fengnir til að skrifa greinar í tengslum við tímamót dómstólsins. Þar á meðal voru Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Claudie Ashonie Wilson, lögmenn Réttar, og má sjá greinina í mynd við þessa frétt.
Í greininni leituðu Auður og Claudie svara við spurningunni: Hvernig væri Hæstiréttur samsettur ef hann endurspeglaði íslenskt samfélag 100 árum frá stofnun sinni? og tóku þar mið af mismununarþáttum jafnræðisákvæðis stjórnarskrárinnar, þ.e. kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahag, ætterni og stöðu að öðru leyti.
Meðal þess sem bent er á í greininni er að einn hæstaréttardómaranna sjö væri innflytjandi þar sem sjöundi hver landsmaður tilheyrir nú þeim hópi, kynjahlutföll dómara væru jöfn eða því sem næst og einn dómaranna myndi vera með einhverskonar fötlun.