Kári Hólmar doktor frá Harvard háskóla
Nú á dögunum varði Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður og einn eigenda á Rétti, doktorsritgerð sína við Harvard Law School. Rannsóknarsérsvið Kára eru nátengd þeim sviðum sem Réttur hefur lagt áherslu á í gegnum árin, þ.e. mannréttindi, stjórnskipunarréttur og félagsleg réttindi.
Titill doktorsritgerðarinnar er “Socio-economic rights and neoliberalism after the 2008 financial crisis” og meðal rannsóknarefna var hvernig vernd félagslegra réttinda var háttað í Evrópu eftir fjármálahrunið 2008 þegar flestar ríkisstjórnir gripu til niðurskurðar í velferðarmálum. Einkum er fjallað um hvert hlutverk dómstóla var í þeirri atburðarrás og sú mynd sem þannig birtist sett í samhengi við gagnrýni sem komið hefur fram á hið alþjóðlega mannréttindakerfi byggð á því að mannréttindi megi sín lítils gagnvart því hugmyndakerfi sem kennt er við nýfrjálshyggju. Leiðbeinendur verkefnisins voru Mark Tushnet, Gerald Neuman og Samuel Moyn, líkt og fjallað var um í fyrri frétt Réttar.
Formleg útskrift Kára verður þann 28. maí nk.
Réttur óskar honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með þennan merka áfanga.