Kári Hólmar fyrsti Íslendingurinn í doktorsnám við lagadeild Harvard í 30 ár
Kári Hólmar Ragnarsson hdl. hefur hlotið inngöngu í doktorsnám við lagadeild Harvard háskóla en hann lauk LLM námi frá sama skóla nú í vor. Aðeins einn Íslendingur hefur lokið doktorsnámi í lögum frá Harvard en það var Guðmundur Alfreðsson sem lauk náminu árið 1982.
Samkeppni um inngöngu í námið er gríðarlega hörð en einungis níu nemendur frá flestum heimshornum voru teknir inn að þessu sinni. Það felst því mikill heiður og viðurkenning á frábærum árangri í því hljóta inngöngu.
Doktorsverkefni Kára verður á sviði mannréttindareglna en það ber vinnuheitið „Félagsleg réttindi og nýfrjálshyggja eftir fjármálakreppuna“. Verkefnið mun m.a. leita svara við því hvaða áhrif vernd félagslegra mannréttinda, svo sem réttarins til félagslegs öryggis og heilsu, höfðu í aðdraganda og við úrlausn fjármálakreppunnar. Sér í lagi er rannsóknarefnið hvort og þá hvernig slík mannréttindi geta takmarkað áhrif nýfrjálshyggju við val á tækum leiðum til úrlausnar efnahagserfiðleika.
Aðalleiðbeinandi Kára í doktorsnáminu verður Mark Tushnet, prófessor í stjórnskipunarrétti og samanburðarstjórnskipunarrétti og aðrir leiðbeinendur verða Gerald Neuman og Samuel Moyn, báðir prófessorar á sviði mannréttinda við Harvard.
Réttur óskar Kára til hamingju með þennan glæsilega árangur og lögmannsstofan er stolt af þessu útibúi sínu í Harvard.