Kári Hólmar útskrifast frá lagadeild Harvard
Kári Hólmar Ragnarsson, einn eigenda Réttar, lauk á dögunum LL.M. námi frá lagadeild Harvard háskóla. Í náminu lagði Kári áherslu á alþjóðlegar mannréttindareglur og fékk m.a. sérstaka viðurkenningareinkunn af hálfu rektors í námskeiði á því sviði. Þá sat Kári námskeið m.a. í réttindum fatlaðra, samanburðarstjórnskipunarrétti, mannréttindum og íslömskum rétti og sérhæfðu námskeiði um mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna og lauk hann þeim með afburða árangri.
Í LL.M. náminu voru 180 nemendur frá öllum heimshornum, þar á meðal tveir Íslendingar. Mikil samkeppni er um inngöngu og má því segja að í náminu hafi verið samankominn rjómi ungra lögfræðinga í heiminum í dag.
Lokaritgerð Kára frá Harvard fjallar um tengsl félagslegra mannréttinda og nýfrjálshyggju eftir fjármálakreppuna í Evrópu. Þar rannsakar hann einkum hvernig mannréttindadómstóll Evrópu hefur fært sig inn á svið félagslegra réttinda með dómum sínum um lífeyrisréttindi, almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu. Á tímum niðurskurðar er mikilvægt að leita svara við því hvort Mannréttindadómstóllinn getur veitt félagslegum réttindum vernd. Meðal niðurstaðna Kára er að í sumum tilvikum veiti dómstóllinn ríka vernd en dómstóllinn hafi hins vegar ekki gert athugasemdir við niðurskurðaraðgerðir eftir kreppuna þegar slíkar aðgerðir eiga rætur sínar að rekja til Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ritgerðin fékk hæstu einkunn en leiðbeinandi hennar var prófessor Mark Tushnet sem hefur um árabil þótt einn áhrifamesti fræðimaður heims á sviði lögfræði.
Réttur óskar Kára til hamingju með þennan glæsilega árangur og þess má geta að annar lögmaður á Rétti, Friðrik Ársælsson, lauk sama námi fá Harvard háskóla fyrir ári síðan.