Lögmenn Réttar á stjórnarskrárráðstefnu í Katalóníu
Þann 10.-11. júní síðastliðinn tóku tveir lögmenn Réttar, Katrín Oddsdóttir hdl. og Ragnar Aðalsteinsson hrl., þátt í stjórnarskrárráðstefnu í Badalona á Spáni.
Kvöldið 10. júní var haldið opið málþing á Trafalgartorgi með yfirskriftina Íslenski spegillinn: Íslenska fordæmið í stjórnarskrárferli Katalóníu (kat. El mirall islandès: L‘exemple d‘Islàndia en el procés constituent català).
Á máliþinginu voru sex framsögumenn en auk Katrínar og Ragnars voru það Dolors Sabater, borgarstjóri Badalona, Teresa Forcades, stjórnarskrárfrömuður í Katalóníu, Èric Lluent, katalónskur blaðamaður sem býr á Íslandi og Jaume López, sjálfstæðissinni sem fluttu erindi (í sömu röð frá vinstri á mynd með frétt).
Katrínu og Ragnari var boðið að taka þátt sem framsögumenn á málþinginu í ljósi víðtækrar reynslu þeirra af vinnu við stjórnskipuleg málefni.
Erindi Ragnars hét „Reflections on constitution making in light of the recent Icelandic experience“ og fjallaði annars vegar um sögu íslensku stjórnarskrárinnar og hins vegar um það hverjir væru best til þess fallnir að gera tillögur að stjórnarskrárbreytingum og hvernig væri heppilegt að standa að slíku ferli.
Katrín fjallaði um ferlið sem farið var í hér á landi á árunun 2009-2013 sem hefur af sérfræðingum verið talið óvanalega lýðræðisleg tilraun til stjórnarskrárumbóta. Hún lagði áherslu á störf og aðferðafræði Stjórnlagaráðs, sem hún var meðlimur í árið 2011.
Þá var á dagskrá ráðstefnunnar fundur sérfræðinga um stjórnarskrárleg málefni Katalóníu þann 11. júní og tóku lögmennirnir einnig þátt í honum.
Tenglar um efnið:
Frétt El Món, 10. júní
Dagskrá málþingsins