Lögmenn Réttar í fasteignakaupamáli
Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum mikið verið fjallað um óvæntar kröfur Félags eldri borgara um að kaupendur íbúða félagsins að Árskógum 1-3 í Mjódd greiði viðbótargreiðslur svo að félagið afhendi þeim íbúðirnar.
Meðal kaupenda sem eru ósáttir við kröfur félagasamtakanna eru umbjóðendur Réttar, sem hafa lagt fram aðfararbeiðni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krefjast þess að fá íbúðina þegar afhenta.
Tveir af lögmönnum Réttar, Sigurður Örn Hilmarsson og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir hafa skýrt málið í fjölmiðlum nýlega. Áður en aðfararbeiðnin var lögð fram sagði Sigurður við fréttastofu RÚV: „Mikið vandamál þarna hjá Félagi eldri borgara en það er skoðun minna umbjóðenda að það sé úrlausnarefni þeirra; verktakans, fjármögnunaraðila og Félags eldri borgara að leysa úr þessari stöðu sem komin er upp“.
Eftir þingfestingu sagði Sigrún í samtali við fréttastofu Vísis: „Mínir umbjóðendur eru á hrakhólum. Kaupsamningurinn er bindandi og það ber að afhenda eignina og einhverjar mögulegar sáttir um verð ef kaupendur kjósa að greiða umfram verð þá er það bara eitthvað sem á að semja um síðar það á ekki að hafa áhrif á afhendingu eignarinnar“.
Félag eldri borgara hefur fengið frest til 20. ágúst næstkomandi til að leggja fram greinargerð í málinu. Skömmu eftir það má vænta þess að úrskurðað verði um aðfararbeiðnina.