Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir Noreg brotlegan
Þann 2. október síðastliðinn komst Mannréttindadómstóll Evrópu að því að Noregur hefði gerst brotlegur gegn 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Um er að ræða mál Hansen gegn Noregi, og má nálgast dóminn í heild sinni hér. Í 6. gr. Mannréttindasáttmálans er fjallað um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
Málið er áhugavert fyrir ýmsar sakir, ekki síst þær að sú framkvæmd sem talin var brjóta gegn 6. gr. sáttmálans, er ekki ósvipuð framkvæmdinni sem viðhöfð er hér á landi.
Niðurstaða dómsins var sú að brot gegn réttlátri málsmeðferð væri fólgið í því að veita ekki rökstuðning fyrir synjun umsóknar einstaklings um áfrýjun héraðsdóms til æðri dómstóls. Í synjun um áfrýjun var vísað með almennum hætti til þess að dómi undirdómstóls yrði ólíklega snúið við (e. „lack of prospects of success“).
Í 82. málgrein dómi Mannréttindadómstólsins kemur fram að borgarinn sem óskaði eftir áfrýjunarleyfi hefði í rökstuðningi sínum byggt á því að málsmeðferð hjá lægra undirdómstól hefði verið ábótavant. Dómstóllinn segir að á grundvelli þess hefðu verið enn sterkari ástæður en ella til þess að Hæstarétti Noregs hefði borið að rökstyðja niðurstöðu sína um synjun áfrýjunar.
Þá fjallaði Mannréttindadómstóllinn einnig um þá staðreynd að norskum reglum um áfrýjun hefði verið breytt á síðustu árum til þess að bæta ágalla á málsmeðferð, m.a. hvað rökstuðning varðar. Þannig kveða núgildandi reglur á um rétt borgara til rökstuddrar niðurstöðu ef synja á um rétt til áfrýjunar dómsmáls. Borgarinn sem leitaði á náðir Mannréttindadómstólsins hafði sem fyrr segir ekki notið slíkra réttinda.
Áhugavert er að rýna í framkvæmd á Íslandi hvað þetta varðar. Algengt er að einstaklingum sem óska eftir áfrýjun á dómum héraðsdóms sé synjað um heimild til áfrýjunar án sérstaks rökstuðnings. Þess ber þó að geta meginreglan er sú að almennt megi áfrýja málum til Hæstaréttar hér á landi. Það eru þannig einungis mál þar sem kröfur eða refsingar eru undir tilteknum lágmarksmörkum sem óheimilt er að áfrýja án sérstakrar heimildar.