Merkileg tímamót í umhverfisrétti?
Dómur féll í dag, 24. júní 2015, í héraðsdómi í Haag í Hollandi sem vakið hefur verðskuldaða heimsathygli. Um er að ræða einkamál sem höfðað var af hálfu hátt í 900 hollenskra borgara, og samtakanna Urgenda. Stefndu borgararnir hollenskum stjórnvöldum vegna þeirrar hættu sem stafar af loftlagsbreytingum.
Í hnotskurn var niðurstaða dómsins sú að skylda bæri hollensk yfirvöld til þess að taka upp strangari aðgerðir gegn loftslagsbreytingum en fyrirhugað var. Er um að ræða fyrsta dóm sinnar tegundar á heimsvísu þar sem dómstóll skyldar yfirvöld til þess að vernda borgara gegn loftslagsbreytingum með bindandi dómsorði. Gæti dómurinn, að mati þeirra sem að honum stóðu, haft áhrif á dómstóla um allan heim.
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar niðurstaða dómstólsins var kunngerð. Krefur dómsorð yfirvöld í Hollandi að lækka magn koltvísýringslosunar um 25% fyrir árið 2020, en takmark yfirvalda var að lækka magnið um 16%.