Nýr og áhugaverður dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um málefni hælisleitenda
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í gær, 4. nóvember 2014, að Sviss hefði gerst brotlegt gegn Mannréttindasáttmála Evrópu. Brotið fólst í ákvörðun svissneskra yfirvalda um að senda fjölskyldu afganskra hælisleitenda til Ítalíu, án þess að kanna nægilega þær aðstæður sem fólksins beið þar.
Ákvörðun svissneskra yfirvalda var grundvölluð á svokallaðri Dyflinarreglugerð sem kveður á um að senda megi hælisleitendur til þeirra aðildarríkja sem þeir sóttu fyrst um hæli í. Hafa íslensk yfirvöld mjög gjarnan beitt umræddri reglugerð og meðal annars sent fólk til Ítalíu á grundvelli hennar á síðustu árum.
Niðurstaða Mannréttindadómstólsins frá því í gær, í máli Tarakhel gegn Swiss, kveður á um að þegar um fjölskyldufólk sé að ræða beri yfirvöldum að kanna sérstaklega hvort aðstæður í ríkinu sem fyrirhugað er að endursenda til séu ásættanlegar. Í þessu felst að ríkinu, sem fyrirhugar slíka endursendingu, ber að leita sérstakrar tryggingar (e. “guarantees”) frá móttökuríki um að aðstæður þar séu séu ásættanlegar með tilliti til aldurs barna og möguleika fjölskyldunnar á að vera sameinuð. Sé sú skylda vanrækt teljist endursending í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmálans sem kveður á um bann við ómannlegri og vanvirðandi meðferð og refsingu.
Þess ber að geta að Ítalía hefur um langa hríð verið talin eitt versta ríki í Evrópu hvað aðstæður hælisleitenda varðar, en íslenskir dómstólar hafa þó ekki fallist á að aðstæður þar í landi séu með þeim hætti að stöðva skuli endursendingar þangað.