Ríkissaksóknari lýsir sig vanhæfa í Guðmundar- og Geirfinnsmálum
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður fer með beiðni Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 214/1978. Um er að ræða refsimál sem í daglegu tali eru nefnd Guðmundar- og Geirfinnsmál. Nú hefur sú staða komið upp að Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, telur sig vanhæfa til að veita umsögn um endurupptöku vegna skyldleika við einn af þeim einstaklingum sem unnu að rannsókn málanna á sínum tíma.
Í bréfi sem birt var í dag á vefsíðu embættis ríkissaksóknara segir Sigríður að niðurstaða hennar um hæfi ráðist ekki af því hvort hún telji sig geta fjallað um málið á hlutlægan hátt, heldur af því hvort almenningur og þeir sem hlut eiga að máli geti treyst því að svo sé.
Ragnar segir það gagnrýnivert að þessi afstaða ríkissaksóknara skuli ekki hafa komið fram fyrr enda málið búið að vera lengi til meðferðar hjá saksóknara. Lýsti Ragnar þessari afstöðu sinni í kvöldfréttum Stöðvar 2.