Sigríður Rut fjallar um lögbann á fjölmiðla
Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl., einn af eigendum Réttar, var í gær í fréttaskýringarþættinum Kastjósi til þess að fara yfir lögbannsmál Glitnis HoldCo gegn fjölmiðlunum Stundinni og Reykjavík Media. Viðtalið má sjá hér.
Rut fór yfir það að málið væri mjög óvenjulegt og hún teldi að ekki hefði átt að fara um málsmeðferðina eftir þeirri undanþágu sem til staðar er í lögum. Einnig fjallaði Rut um það að hún teldi skilyrði umrædds lögbanns óuppfyllt og sagði meðal annars um það:
„Ég tel að þær fréttir sem þegar hafa birst og um þann aðila sem þar um ræðir, ég tel að það séu upplýsingar sem eigi erindi til almennings og það sé ekki heimilt að stoppa eða takmarka þá upplýsingaveitu eða þá tjáningu.“
Jafnframt sagði Rut:
„Það er ekkert sem bendir til þess að umbjóðendur mínir, hvort sem það er Reykjavík Media eða Stundin, ætli sér eða séu búnir að hefja, eða að það sé yfirvofandi athöfn sem brjóti gegn einhverjum rétti Glitnis HoldCo. Það er ekkert sem bendir til slíks og það er engin slík athöfn byrjuð eða yfirvofandi, sérstaklega ekki á slíkum grundvelli sem að lýst er í þessari lögbannsbeiðni.“
Fjölmiðlar hafa verið áhugasamir um málið og var Rut einnig fenginn sem álitsgjafi í tíufréttum Ríkisútvarpsins sl. mánudag, sjá hér og einnig hjá Vísi, sjá hér. Ragnar Aðalsteinsson, annar af eigendum Réttar var einnig fenginn sem álitsgjafi um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær, sjá hér.
Tjáningarfrelsi, fjölmiðlaréttur og höfundarréttur hafa lengi verið meðal sérsviða Réttar – Aðalsteinsson & Partners. Áhugavert verður að sjá hverjar lyktir þessa lögbannsmáls verða.