Sigur í 6,5 milljarða riftunarmáli
Fimmtudaginn 15. mars 2018 sýknaði Hæstiréttur Íslands umbjóðanda Réttar, Raiffeisen Bank International AG (RBI), af kröfu Kaupþings um riftun á lánagreiðslu og greiðslu 25 milljóna evra auk dráttarvaxta, en heildarfjárhæð krafna Kaupþings jafngilti 6,5 milljörðum króna við dómsuppsögu. Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um málið.
Ágreiningur málsins stóð um heimildir fyrirtækja til að endurfjármagna skuldir sínar, en í dómi Hæstaréttar segir:
„Litið verður heildstætt á þær tvær lántökur [Kaupþings] sem um er fjallað í málinu og hvernig staðið var að endurgreiðslu á hluta fyrra lánsins til [RBI] 20. júní 2008. Niðurstaðan af þessum tveimur lánsviðskiptum varð sú að í stað 300.000.000 evra fjármögnunar til 11. nóvember 2008 tryggði [Kaupþing] sér 425.000.000 evra fjármögnun til þess dags en jafnframt nýja 275.000.000 evra framhaldsfjármögnun til tveggja ára. Þótt kjör síðara lánsins væru lakari en þess fyrra var um mikilvæga 125.000.000 evra viðbótarfjármögnun að ræða fyrir [Kaupþing] á erfiðum tímum í rekstri bankans og jafnframt framlengingu á fjármögnun hans hvað varðar stærstan hluta upphaflegs láns í rúma átján mánuði. Að þessu virtu verður fallist á með [RBI] að miða verði við að lánið sem tekið var 13. júní 2008 hafi falið í sér ávinning fyrir [Kaupþing] þótt vaxtakjör þess hafi verið lakari en á fyrra láni. Verður umdeild greiðsla því talin venjuleg eftir atvikum í skilningi niðurlags 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort líta beri til enskra laga við úrlausn málsins. Verður [RBI] því sýknaður af kröfum stefnda.“
Málsmeðferð héraðsdóms og Hæstaréttar tók alls rúmlega sex ár og stafaði lengdin af því að í málinu reyndi á ýmis flókin álitaefni eins og viðskiptavenjur á alþjóðlegum fjármálamarkaði árið 2008 og lagaskil, þ.e. hvort beita ætti enskum rétti við úrlausn málsins. Í þeim tilgangi var aflað matsgerðar Louise Gullifer, prófessor við Oxford háskóla, um efni enskra gjaldþrotaskiptalaga.
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti og eigandi á Rétti – Adalsteinsson & Partners, flutti málið fyrir hönd RBI. Á undanförnum árum hefur hann ásamt öðrum lögmönnum Réttar, þeim Friðriki Ársælssyni, Kára Hólmari Ragnarssyni og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur rekið talsvert af málum þar sem reynir á flókin álitaefni tengd fjármálagerningum, s.s. afleiðuviðskipti, alþjóðlega lánasamninga, riftunarreglur gjaldþrotskiptalaga og lagaskil milli íslensks og erlends réttar.