Sigur í eignaréttarmáli í Landsrétti
Á föstudag sneri Landsréttur við niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands í máli Gunnars Jónssonar gegn Borgarbyggð nr. 261/2019. Í apríl hafði dómstóllinn fallist á kröfu Borgarbyggðar um beitarafnot af jörð áfrýjanda á grundvelli notkunar og hefðarréttar. Landsréttur féllst ekki á þessa niðurstöðu en í dómnum segir:
„Óumdeilt er að stefndi nýtti áfram hinn umdeilda jarðarhluta sem afréttarland með sama hætti og hann hafði áður gert. Hefðartími sýnilegra ítaka er 20 ára óslitin nýting samkvæmt 7. gr., sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 46/1905. Samkvæmt 8. gr., sbr. 2. og 3. gr. sömu laga, vinnst hefð á ósýnilegum ítökum með 40 ára notkun. Með bréfi 18. febrúar 2010 lagði áfrýjandi bann við því að landið væri beitt, eða tæpum 20 árum eftir að mögulegt hefðarhald stefnda hófst en það rofnaði í síðasta lagi á þeim tíma. Samkvæmt framansögðu hefur stefndi ekki haft beitarafnot af landinu fullan hefðartíma. Verður kröfum hans því hafnað og fallist á þá viðurkenningarkröfu sem áfrýjandi hefur aðallega uppi í málinu.“
Ragnar Aðalsteinsson, einn af eigendum Réttar, flutti málið fyrir hönd áfrýjanda en hann hefur áratuga reynslu á sviði eignaréttar- og landamerkjadeilna.