Tvöföld staðfesting í félagaréttarmáli
Hæstiréttur Íslands staðfesti í vikunni dóm Landsréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að riftun hluthafasamkomulags í stóru innlendu félagi hafi verið heimil. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið greina frá þessu.
Í málinu reyndi einkum á hvort skilyrði kröfuréttar um verulega vanefnd, forsendubrest og ógildanleika væru uppfyllt vegna riftunarinnar. Þau atriði sem réðu einkum niðurstöðu Hæstaréttar voru annars vegar að stefndi þótti ekki hafa samþykkt framsal á verulegum hlutum félagsins og hins vegar að nýir hluthafar hefðu ekki gengist undir gildandi hluthafasamkomulag, svo sem áskilið var í því. Með vísan til stærðar hins framselda hlutar var fallist á með stefnda að um verulega vanefnd hefði verið að ræða og riftun hans því verið heimil.
Friðrik Ársælsson og Sigurður Örn Hilmarsson, lögmenn og eigendur á Rétti fluttu málið fyrir hönd stefnda, sem bar sigur úr býtum á öllum þremur dómstigum.