Fréttir / News

Sigríður Rut Júlíusdóttir

Nýtt fordæmi Hæstaréttar um vernd tjáningar

  |   Fréttir af stofunni

Þann 25. september s.l. kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli nr 103/2014: Jón Steinar Gunnlaugsson gegn Þorvaldi Gylfasyni. Fyrir hönd Þorvaldar, flutti málið Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður á Rétti en hún hefur m.a. sérhæft sig í hagsmunagæslu í málum sem varða tjáningarfrelsi.  Málið varðaði ummæli Þorvaldar þess efnis að sá orðrómur gengi að tiltekinn dómari í Hæstarétti hefði aðstoðað við að semja kæru til réttarins vegna framkvæmdar kosningar um stjórnlagaþing og sami dómari hefði síðan setið í dómi Hæstaréttar þegar rétturinn tók þá ákvörðun að ógilda téðar kosningar. Í dómi Hæstaréttar er staðfest heimild Þorvaldar til að endursegja ummæli sem áður hafa birst opinberlega en umfjöllun um orðróminn hafði áður birst í fjölmiðli og var þar áfrýjandi, Jón Steinar nafngreindur þó svo að hann hefði raunar ekki verið nafngreindur í ummælum Þorvaldar. Hæstiréttur lagði áherslu á að Þorvaldur hafði haft fyrirvara á ummælum sínum, enda tók hann sérstaklega fram að orðrómurinn hefði ekki verið sannaður. Taldi Hæstiréttur þar með staðfest að Þorvaldur hefði ekki tekið afstöðu til sannleiksgildis orðrómsins, heldur hefði áhersla ummælanna verið að segja frá tilvist orðrómsins og fela lesendum að álykta sjálfir um sannleiksgildi orðrómsins. Benti Hæstiréttur á að ummælin hefðu verið hluti af viðamikilli umfjöllun Þorvaldar um endurskoðun á stjórnarskránni en um ógildi Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni, lögmæti hennar og afleiðingar hefði verið töluverð þjóðfélagsumræða. Þá lagði Hæstiréttur áherslu á að aðaláfrýjandi, Jón Steinar, hefði gefið kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings og hafi á löngum starfsferli m.a. tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um ýmis málefni og verið talsmaður þess að dómarar verði að þola gagnrýni á störf sín á opinberum vettvangi. Með þessum ummælum setur Hæstiréttur í raun ákveðinn mælikvarða á það hvernig meta skuli tjáningarfrelsi þegar umdeild ummæli lúta að gagnrýni á dómara. Af þessu má m.a. álykta að dómarar sem kjósa að taka þátt í þjóðfélagsumræðu og hvetja til þess að dómarar tjái sig með slíkum hætti, verði sjálfir að þola aukna gagnrýni.

Dóminn í heild má finna hér:https://haestirettur.is/domar?nr=9855