Erindi Jónu Þóreyjar um jafnrétti, mannréttindi og loftslagsvá á Opnu kvennaþingi
Um helgina fór fram Opið Kvennaþing á Hilton Reykjavík Nordica þar sem Jóna Þórey Pétursdóttir, fulltrúi á Rétti og mannréttindalögfræðingur, hélt erindi fyrir fullum sal um jafnrétti, mannréttindi og loftslagsvána.
Tilefni þingsins var að 40 ár eru liðin frá stofnun Kvennalistans og var því efnt til opins kvennaþings um mál sem brenna á konum í dag. Erindi Jónu Þóreyjar snerist um tengsl loftslagsvánnar við mannréttindi og kvenréttindi.
Jóna Þórey fjallaði um það hvernig loftslagsváin hefur í reynd margföldunaráhrif á annan vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir, þar á meðal ójafnrétti og valdaójafnvægi kynja. Jóna Þórey rakti hvernig aukin tíðni skyndilegra náttúruhamfara, ásamt hægum en stöðugum eyðileggingaráhrifum loftslagsbreytinga, hefur í för með sér að fólki á flótta fjölgar sem og að mansal, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi eykst. Jafnframt fjallaði Jóna Þórey um það hvernig loftslagsvandinn bitnar verst á réttindum minnihlutahópa og fólki af kynþáttum og menningarheimum sem hafa minnst lagt til vandans. Hún sagði aðgerðarleysi í loftslagsmálum auka ójöfnuð og að mikilvægt væri að huga vel að aðstæðum og móttöku flóttafólks.
Í erindi sínu hvatti Jóna til umræðna meðal fundargesta um hvernig mætti sporna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem loftslagsbreytingar hefðu á réttindi fólks, sér í lagi kvenna, og hvernig mætti tryggja að þau sem verða fyrir mestum áhrifum af þeim neikvæðu áhrifum fái pláss við borðið og komi að ákvarðanatökum um framtíð sína og komandi kynslóða.
Fjallað var um þingið m.a. á mbl.is.