Alþingi samþykkir að skipa rannsóknarnefnd vegna Súðavíkurflóðsins
Réttur fer fyrir hópi þrettánmenninga sem eiga það sammerkt að hafa misst aðstandendur í snjóflóðinu í Súðavík 16. janúar 1995.
Frá því að þessir skelfilegu atburðir urðu hafa aðstandendur ítrekað óskað eftir að óhlutdræg rannsókn fari fram, án þess að því kalli hafi verið svarað. Í apríl 2023 fór Réttur þess á leit fyrir hönd aðstandenda að slík rannsókn yrði gerð á aðdraganda og eftirmálum snjóflóðsins. Erindið var áframsent af forsætisráðherra til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 6. júní 2023. Að lokinni yfirferð sinni lagði nefndin fram þingsályktunartillögu þess efnis að skipa ætti rannsóknarnefnd vegna Súðavíkurflóðsins. Alþingi samþykkti tillöguna 30. apríl s.l. með öllum greiddum atkvæðum.
Í nefndinni munu sitja þrír einstaklingar sem hafa fengið það verkefni að rannsaka málsatvik öll í tengslum við snjóflóðið í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda í aðdraganda og kjölfar þess. Á grundvelli slíkrar athugunar gætu Alþingi og stjórnvöld eftir atvikum metið hvort dreginn hafi verið lærdómur af atburðunum og hvort úrbóta sé þörf.
Það var mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mikilvægt væri að fram færi hlutlæg og óháð rannsókn á þeim atburðum sem áttu sér stað sem hingað til hefði ekki farið fram. Þetta hafi skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem væri mikilvægt að eyða.
Rannsókn nefndarinnar mun ljúka innan árs frá skipun hennar.
Réttur fagnar þessari niðurstöðu og að ákalli aðstandanda hafi loks verið svarað nú þrjátíu árum síðar.
Umfjöllun um málið má sjá hjá Heimildinni hér sem og hjá Morgunblaðinu hér.
Sigurður Örn Hilmarsson, eigandi á Rétti og formaður Lögmannafélags Íslands og Kristrún Ragnarsdóttir, lögmaður og fulltrúi á Rétti, hafa gætt hagsmuna aðstandendanna.