Nýr áfellisdómur yfir íslenska ríkinu
Mannréttindadómstóll Evrópu kvað hinn 13. janúar 2026 upp tvo dóma í málum fimm íslenskra kvenna gegn íslenska ríkinu vegna meðferðar á kærum þeirra vegna kynferðisofbeldis.
Málin er að rekja aftur til ársins 2019 er Stígamót kölluðu eftir brotaþolum, sem höfðu kært kynferðisbrot eða heimilisofbeldi til lögreglu en mál þeirra síðan verið felld niður af ákæruvaldinu og voru tilbúnir til að láta á það reyna fyrir Mannréttindadómstólnum hvort meðferð mála þeirra hafi brotið gegn réttindum þeirra samkvæmt Mannréttindasáttmálanum (fréttina er að finna hér). Tilgangurinn með kærunum væri að vekja athygli á kerfisbundnum vanda og láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi hvers vegna staða kvenna, sem þolenda ofbeldisbrota á Íslandi, væri svo veik. Hinn 8. mars 2021, sem er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, kynntu Stígamót kærurnar (fréttina er að finna hér).
Réttur gætti hagsmuna kærenda fyrir Mannréttindadómstólnum og lagði fram kærur á hendur íslenska ríkinu. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður fór fyrir málinu, en naut liðsinnis lögmannanna Sigurðar Arnar Hilmarssonar, Lindu Írisar Emilsdóttur og Védísar Evu Guðmundsdóttur. Mannréttindadómstóllinn samþykkti að taka níu mál til efnismeðferðar. Það eitt og sér voru stór tíðindi.
Nú hafa dómar fallið í sjö af þessum níu málum. Tveir dómar féllu hinn 26. ágúst 2025, annars vegar í máli M.A. gegn Íslandi (mál nr. 59813/19) og hins vegar í máli B.A. gegn Íslandi (mál nr. 17002/20) (sjá frétt hér). Hinn 13. janúar síðastliðinn féllu tveir dómar til viðbótar, annars vegar í máli Z gegn Íslandi (mál nr. 3538/21) og hins vegar í máli R.E. og fleiri gegn Íslandi (mál nr. 59809/19, 59813/19, 8034/20 og 17006/20).
Kæra kvennanna laut í meginatriðum að því að íslenska ríkið hefði brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja vandaða og skilvirka rannsókn í málum þeirra og veita þeim fullnægjandi vernd gegn kynbundnu ofbeldi, einkum kynferðisofbeldi, og þar með brotið gegn 3. gr. Mannréttindasáttmálans um bann við pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Jafnframt var því haldið fram að innan íslenska réttarvörslukerfisins þrifist kerfisbundin mismunum gagnvart konum, þar sem kynferðisofbeldismál væru almennt ekki rannsökuð eða saksótt af sama þunga og önnur ofbeldisbrot, og að konum hafi ekki verið veitt fullnægjandi vernd gegn kynferðisofbeldi í lögum fram til ársins 2018 þar sem í framkvæmd hafi áherslan verið lögð á að sýna fram á ofbeldi og mótspyrnu frekar en skort á samþykki.
Í máli R.E. og fleiri gegn Íslandi var íslenska ríkið sýknað af kröfu um viðurkenningu á broti gegn fyrrnefndum ákvæðum Mannréttindasáttmálans. Aftur á móti féllst dómstóllinn á að íslenska ríkið hefði brotið gegn 8. gr. sáttmálans í máli Z gegn Íslandi. Dómstóllinn taldi íslensk yfirvöld hafa brugðist þeim jákvæðu skyldum sínum að beita löggjöfinni með þeim hætti að unnt væri að leiða í ljós málsatvik og saksækja gerandann þegar það ætti við. Brotið fólst einkum í því að yfirvöld hafi ranglega lagt megináherslu á að skoða og meta ásetning meints geranda og hvað honum hafi gengið til, fremur en hvort hann hafi haft ástæðu til að ætla að samþykki þolanda hafi legið fyrir. Dómstóllinn leggur áherslu á nauðsyn þess að yfirvöld nálgist mál af þessu tagi út frá því hvort gera hafi mátt ráð fyrir að samþykki brotaþola væri fyrir hendi, svo unnt sé að tryggja þolendum virka og raunhæfa vernd gegn kynferðisofbeldi í samræmi við 8. gr. Mannréttindasáttmálans.
Réttur fagnar þessari niðurstöðu. Hún felur í sér þýðingarmikla áréttingu Mannréttindadómstólsins á mikilvægri þróun í átt að aukinni réttarvernd þolenda kynferðisofbeldis, þar sem samþykki er sett í forgrunn. Þá dregur dómstóllinn fram með skýrum hætti þær kröfur sem gera verður til réttarvörslukerfisins við rannsókn og meðferð mála af þessu tagi. Dómarnir hafa þannig mikið leiðbeiningargildi til frambúðar.
Viðtal við Sigurð Örn Hilmarsson, eiganda á Rétti, í tilefni af dómum Mannréttindadómstólsins má finna hér.
Hér má skoða dóma Mannréttindadómstóls Evrópu:

