Mikilvæg niðurstaða um rétt höfunda
Fyrir mánuði féll fordæmisgefandi dómur í höfundaréttarmáli gegn Reykjavíkurborg sem hefur nú orðið bindandi, þar sem honum var ekki áfrýjað. Lögmenn Réttar, Auður Tinna Aðalbjarnardóttir og Védís Eva Guðmundsdóttir sáu um undirbúning og flutning málsins.
Málsatvik voru þau að leikstjóri og aðalhandritshöfundur heimildarmyndarinnar Keep Frozen, Hulda Rós Guðnadóttir uppgötvaði í heimsókn á Sjóminjasafnið í mars 2020 að verið væri að sýna hluta myndarinnar á safninu. Þrátt fyrir samskipti á vegum safnsins við framleiðanda myndarinnar um líklega notkun hafði aldrei verið gengið frá samningi eða samið um sanngjarna þóknun.
Í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu að safninu hefði borið að semja fyrirfram við höfunda verksins, þ.m.t. Huldu sem leikstjóra, sem er mikilvæg áréttun þeirrar reglu höfundalaga. Þá lagði dómurinn áherslu á rétt höfundar til nafngreiningar á fordæmisgefandi hátt. Um það sagði dómurinn:
„Stefndi hefur byggt á því að óhagræði hafi verið af því að tvinna slíka nafnbirtingu inn í sjálft myndbandið, en að mati dómsins hefði auðveldlega mátt bregðast við því á annan hátt án mikillar fyrirhafnar, svo sem með skilti með upplýsingum um nafn stefnanda og aðkomu hennar að kvikmyndinni Keep Frozen, en þess var getið í fyrrgreindum aðstandendalista, sem birtist í lok myndarinnar, að stefnandi væri í senn leikstjóri og handritshöfundur. Gat stefnda því ekki dulist sú aðkoma stefnanda að kvikmyndinni. Starfsemi stefnda að þessu leyti felur í sér starfrækslu safns sem er ætlað öllum almenningi og mátti því gera þær kröfur til hans að gætt væri að fyrrgreindum rétti stefnanda.“
Vegna framangreindra brota á 2. og 4. gr. höfundalaga voru höfundi bæði dæmd þóknun fyrir notkun verksins og 200.000 krónur í miskabætur.
Vísir og Fréttablaðið greindu frá niðurstöðu málsins Fréttablaðið fjallaði jafnframt um aðalmeðferð þess. Talsverð umræða skapaðist meðal höfunda um niðurstöðuna, m.a. um að of algengt sé að kvikmyndaverk séu sýnd af hálfu opinberra aðila í heimildarleysi og að miskabætur í höfundaréttarmálum séu of lágar, svo sem leikstjórinn Baldvin Z gerði að umtalsefni. Um þetta hefur Hulda sjálf sagt:
„Upphæðir bóta verða að breytast og vera í takt við heiminn sem við búum í. Til þess að það gerist þyrfti að breyta löggjöf um höfundaréttabrot. Tel ég brýnt að viðeigandi hagsmunasamtök beiti sér fyrir því.“
Lögmenn Réttar starfa mikið við höfundaréttarmál og gæta m.a. hagsmuna ýmissa rétthafasamtaka á sviði ritverka, kvikmynda, leikrita og annarra hugverka, auk fjölda einstakra höfunda.