Fréttir / News

Ákvörðun Ríkislögreglustjóra ógilt

  |   Fréttir af stofunni

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 11. ágúst 2015, er fjallað um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti ákvörðun Ríkislögreglustjóra þann 3. júlí síðastliðinn. Í dómnum kemur fram að embætti Ríkislögreglustjóra hafi stuðst við upplýsingar úr málaskrá lögreglu um manninn, sem hafði þó hreint sakavottorð, þegar hafnað var umsókn hans um heimild til aðgangs að svokölluðu haftasvæði flugverndar. Í dómnum segir að í rökstuðningi Ríkislögreglustjóra fyrir neikvæðri niðurstöðu hafi engan veginn verið tilgreint hvernig maðurinn sem um ræðir gæti talist ógn við öryggi flugsamgangna, en slík ógn er skilyrði fyrir neikvæðri umsögn skv. lögum. Fyrir vikið fólst í ákvörðuninni brot gegn reglum stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings, meðalhófsreglu og meginreglu laga um skyldubundið mat.

Þess ber að geta að maðurinn hafði áður kært niðurstöðu Ríkislögreglustjóra til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti hina neikvæðu ákvörðun. Er því um algeran viðsnúning að ræða í umræddri dómsniðurstöðu.

Katrín Oddsdóttir hdl. flutti málið fyrir hönd mannsins sem fór fram á ógildingu. Hún segir í viðtali við Fréttablaðið að dómurinn sé tilefni þess að settar séu skýrar lagareglur um hvernig megi nota umrædda málaskrá lögreglu. Fyrir hönd stefnanda var á því byggt að í ákvörðun Ríkislögreglustjóra fælist brot gegn stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi hans sem og reglum stjórnsýsluréttar.

Lesa má umfjöllun Fréttablaðsins um málið hér.