Fréttir / News

Brotaþoli hafði betur gegn íslenska ríkinu hjá Mannréttindadómstól Evrópu

  |   Fréttir af stofunni

Þann 26. ágúst síðastliðinn féllu tveir dómar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu gegn íslenska ríkinu í málum vegna ofbeldis gegn konum.  

Málin er að rekja allt aftur til ársins 2019 þegar Stígamót, samtök gegn kynferðisofbeldi,  auglýstu eftir brotaþolum, sem áttu það sameiginlegt að hafa kært nauðgun, heimilisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður af ákæruvaldinu og voru tilbúnir til að láta á mál sín reyna fyrir Mannréttindadómstólnum (fréttina er að finna hér). Tilgangurinn með kærunum var að vekja athygli á kerfisbundnum vanda og láta íslenska ríkið svara fyrir það á alþjóðavettvangi hvers vegna staða kvenna, sem þolenda ofbeldisbrota á Íslandi, væri svo veik. Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2021, kynntu Stígamót kærurnar (fréttina er að finna hér). 

Stígamót leituðu til Réttar sem tók að sér að gæta hagsmuna kærenda og lagði fram kærur á hendur íslenska ríkinu. Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, sem á þeim tíma var einn af eigendum stofunnar, fór fyrir málinu, en naut liðsinnis Sigurðar Arnar Hilmarssonar, Lindu Írisar Emilsdóttur og Védísar Evu Guðmundsdóttur.  

Mannréttindadómstóllinn samþykkti að taka níu mál til efnismeðferðar sem út af fyrir sig voru stór tíðindi. Nú hefur dómur fallið í tveimur þeirra, M.A. gegn Íslandi (mál nr. 59813/19) og B.A. gegn Íslandi (mál nr. 17002/20). Beðið er niðurstöðu í hinum sjö.   

Kæra kvennanna laut í meginatriðum að því að íslenska ríkið hefði brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja vandaða og skilvirka rannsókn í málum þeirra og veita þeim fullnægjandi vernd gegn kynbundnu ofbeldi. Þannig hefði íslenska ríkið brotið gegn 3. gr. Mannréttindasáttmálans um bann við pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Jafnframt var því haldið fram að innan íslenska réttarvörslukerfisins þrifist kerfisbundin mismunum gagnvart konum, þar sem heimilis- og kynferðisofbeldismál væru almennt ekki rannsökuð eða saksótt með sama þunga og önnur ofbeldisbrot og íslenska ríkið hefði þar af leiðandi brotið gegn 14. gr. sáttmálans um bann við mismunun í tengslum við 3. og 8. gr.  

Í máli B.A. gegn Íslandi var íslenska ríkið sýknað af kröfu um viðurkenningu á broti gegn fyrrnefndum ákvæðum sáttmálans, en aftur á móti var fallist á að íslenska ríkið hefði brotið gegn 8. gr. sáttmálans í máli M.A. gegn Íslandi. Brotið fólst í því að ríkið hafi ekki sinnt jákvæðum skyldum sínum til að rannsaka mál af skilvirkni og kostgæfni. Niðurstöðu sína byggir dómstóllinn á þeim grunni að rannsókn málsins hafi dregist fram úr hófi með þeim afleiðingum að brotin fyrndust í höndum lögreglu.  

Frétt frá Stígamótum í tilefni af sigri fyrir Mannréttindadómstólnum má finna hér.  

Réttur fagnar þessari niðurstöðu. Með henni hefur Mannréttindadómstóll Evrópu styrkt réttarvernd þolenda heimilis- og kynferðisofbeldis, dregið fram mikilvægi þess að yfirvöld vandi til verka og taki rannsókn mála af þessum toga föstum tökum og beri mannréttindi brotaþola fyrir brjósti.   

Viðtal við Sigurð Örn Hilmarsson, eiganda á Rétti og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í tilefni af dómum Mannréttindadómstólsins má finna hér. Þá hafa íslensk stjórnvöld brugðist við dóminum með fréttatilkynningu sem má finna hér.  

Hér má skoða dóma Mannréttindadómstóls Evrópu:  

Mál M.A. gegn Íslandi 

Mál B.A. gegn Íslandi