Fréttir / News

Claudie Wilson í samstarfi með lögreglunni

  |   Fréttir af stofunni

Þann 4. maí 2017 var Claudie Ashonie Wilson hdl., einn af lögmönnum Réttar, fundarstjóri á kynningarfundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefnið „Lögregla í fjölbreyttu samfélagi“. Verkefnið, sem hefur verið í gangi frá því í september 2016, gengur út á það að skapa vettvang þar sem lögreglumenn og innflytjendur geta talað saman með það að markmiði að skapa þekkingu og traust og efla menningarlæsi lögreglumanna.

Claudie var bæði stuðningsmaður og þátttakandi í verkefninu. Hópurinn samanstóð af um 30 manns með ólíkan uppruna og menningarbakgrunn. Þátttakendur á þessum fyrstu mánuðum verkefnisins voru allir innflytjendur frá ríkjum utan Evrópu, svo sem Sýrlandi, Gvatemala og ríkjum Vestur-Afríku.

Hluti af verkefninu var að halda námskeið fyrir lögregluna þar sem fjallað var um fjölbreytileika samfélags. 45 lögreglumenn sóttu námskeiðið, en það er næstum 7% af mannafla lögreglunnar á Íslandi.

Niðurstöður verkefnisins þykja jákvæðar og áform eru um að halda því áfram á næstu mánuðum. Í framhaldinu verða innflytjendur frá Evrópuríkjum einnig þátttakendur.

Claudie hyggst halda áfram að veita verkefninu stuðning sinn og um verkefnið hafði hún þetta að segja:

„Án nokkurs vafa á lögregluembættið hrós skilið fyrir þetta frábæra framtak og að sama skapi þátttakendur fyrir að taka svona vel í þetta.“

 

Tenglar:

Frétt um uppruna verkefnisins hér.

Umfjöllun RÚV um verkefnið hér.

Umfjöllun Vísis um verkefnið hér.