Eigendur Réttar í Heimildinni vegna verksins Orð gegn orði
Leikverkið Orð gegn orði eftir Suzie Miller sem fjallar um lögmanninn Tessu, verjanda í kynferðisbrotamálum, er frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í kvöld, þann 17. nóvember. Heimildin fékk nokkra lögmenn úr eigendahópi Réttar, þau Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, Védísi Evu Guðmundsdóttur og Sigurð Örn Hilmarsson, til að ræða um verkið og hvernig staðið er að kynferðisbrotamálum hér á landi.
Umfjöllunin rekur bakgrunn og reynsluheim eigendanna af kynferðisbrotamálum stuttlega, til dæmis málarekstur Sigrúnar Ingibjargar á svokölluðum Stígamótamálum sem snúa að niðurfellingu kynferðisbrotamála hjá lögreglu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, og réttargæslu- og verjendastörf Védísar Evu og Sigurðar Arnar.
Eigendurnir segja verkið trúverðugt, áhrifaríkt og veita innsýn í hugarheim brotaþolans. Védís sagði verkið endurspegla sönnunarumhverfið á Íslandi og kom fram í umfjöllun eigendanna að áhersla á samþykki hafi aukist með breytingum á löggjöf í íslensku réttarkerfi á undanförnum árum. Veltu þau því upp hvort þær lagabreytingar hafi skilað tilætluðum árangri, hvernig þær horfi við þeirri staðreynd að nauðgun sé ásetningsbrot og að sönnun í þeim málum þurfi að taka mið af aðstæðunum.
Þau ræddu erfiðleika við sönnun í kynferðisbrotamálum og fjallaði Sigrún um að réttarkerfið nái ekki nógu vel utan um þessi brot. Védís vakti athygli á því hve takmarkað réttlæti brotaþolar fái úr því að leita réttar síns og sagði Sigurður málin of oft enda með vonbrigðum. Þá kom fram í máli eigendanna hve mikilvægt það kann að vera fyrir brotaþola að fá viðurkenningu á brotinu og að gerandi axli ábyrgð.
Sigurður fjallaði um mikilvægi þess að sinna kynferðisbrotamálum af einurð, fagmennsku og virðingu við alla hlutaðeigandi. Þá voru eigendurnir sammála um að kynferðisbrotamál taka allt of langan tíma í kerfinu.
Í greininni er einnig rætt við Ragnar Jónsson, sem þýddi verkið og keypti það upphaflega ásamt Þóru Karítas Árnadóttur, sem leikstýrir verkinu. Nánari umfjöllun má finna í Menningunni í Heimildinni, 17.-23. nóvember.
Mynd: Heimildin/Anton Brink