Erindi Jónu á málþingi um alþjóðlegan rétt til heilnæms umhverfis
Jóna Þórey Pétursdóttir, fulltrúi hjá Rétti og mannréttindalögfræðingur, hélt erindi um réttinn til hreins, heilbrigðs og sjálfbærs umhverfis sem var til umfjöllunnar á málþingi í Háskólanum í Reykjavík í síðustu viku. Að viðburðinum stóðu Center for International Environmental Law, Háskólinn í Reykjavík, Mannréttindastofnun Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands og héldu þar m.a. einnig erindi Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og David Boyd, Special Rapporteur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og umhverfið.
Viðburðurinn er haldinn í aðdraganda Reykjavik Summit, ráðstefnu Evrópuráðsins (Council of Europe) hér á landi sem haldin verður í maí. Einn grundvallarsamningur Evrópuráðsins er Mannréttindasáttmáli Evrópu, en ólíkt öðrum svæðisbundnum mannréttindasáttmálum viðurkennir Mannréttindasáttmálinn ekki sjálfstæðan rétt til umhverfis.
Erindi Jónu fjallaði um mikilvægi þess að mannréttindavernd í Evrópu og á Íslandi verði ekki eftirbátur þróunar mannréttinda á alþjóðavísu og að rík ástæða sé til þess að tryggja réttinn til umhverfis sem sjálfstæð mannréttindi. Mikilvægi náttúrunnar til að tryggja fulla vernd mannréttinda sé ótvíræð en auk þess þurfi náttúran að njóta sérstakrar verndar í ljósi ágangs mannfólks á hana og þess neyðarástands sem ríkir í loftslagsmálum, mengunarmálum og líffræðilegum fjölbreytileika.
Háskólinn í Reykjavík fjallaði nánar um málþingið en þar má einnig nálgast upptöku frá viðburðinum.
Myndina tók HR/Hari.