Fréttir / News

Feðgin fengu alþjóðavernd

  |   Fréttir af stofunni

Abrahim og Haniye Maleki, afgönsku feðginin sem vöktu mikla athygli þegar brottvísa átti þeim frá Íslandi síðasta haust, hafa fengið alþjóðavernd hér á landi. Mbl, Fréttablaðið og RÚV hafa greint frá niðurstöðunni en Claudie Ashonie Wilson, sérfræðingur Réttar í útlendingamálum var lögmaður feðginanna.

Þegar Claudie tók við málinu í september 2017 kom upp sú óvenjulega staða að umbjóðendum hennar var tilkynnt um að þeim yrði brottvísað eftir þrjá daga, þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála væri með beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa til skoðunar. Í ljós kom að formgalli  var á ákveðnu birtingarvottorði í málinu og var óskað eftir því að lögregla beitti heimild sinni skv. 2. mgr. 35. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 til þess að leggja fyrir Útlendingastofnun að fresta brottvísuninni. Ríkislögreglustjóri féllst á þessa beiðni, en ekki er vitað til þess að slíkt hafi gerst fyrr eða síðar.

Um þetta atriði sagði Claudie í viðtali við Vísi: „Það er gott að þetta fór svona og það er mjög jákvætt að stjórnvöld taka sig á og stöðva þessa framkvæmd. Þetta var réttmæt niðurstaða, þetta á ekki að eiga sér stað í ljósi málsatvikanna og þessa formgalla.“.

Í framhaldinu samþykkti Alþingi lög nr. 81/2017 um breytingu á útlendingalögum, þar sem efnisleg meðferð hælisumsókna í vissum málum barna var tryggð. Eftir það féllst kærunefnd útlendingamála á endurupptöku  í máli feðginanna og endaði málsmeðferðin með veitingu alþjóðaverndar í gær.

Réttur óskar fjölskyldunni innilega til hamingju með niðurstöðuna.