Fréttir / News

Fjórir lögmenn Réttar í fréttum

  |   Fréttir af stofunni

Undanfarna viku hafa ýmsir lögmenn Réttar verið til umfjöllunar vegna áberandi mála.

Á fimmtudag fjallaði Ragnar Aðalsteinsson um sýknudóm Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Í viðtali við Ríkisútvarpið  sagði Ragnar m.a.: „dómurinn lagði ekki í það að gera hinar nauðsynlegu athugasemdir við meðferð þessa máls allt frá 1976 til 1980. […] Ég er ánægður með niðurstöðuna en ekki forsenduna.“

Á föstudag greindi Mbl.is frá málflutningi Sigríðar Rutar Júlíusdóttur fyrir Landsrétti í lögbannsmáli Stundarinnar og Glitnis HoldCo, sem mikið hefur verið fjallað um. Í málflutningi sínum minnti Rut á að lögbannið hefði nú staðið í ár, þrátt fyrir að héraðsdómur hefði synjað kröfum Glitnis. Málið snerist um ritskoðun og mikilvægt væri að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.

Sama dag birti Stundin viðtal við Claudie Ashonie Wilson um mikilvægi þess að núgildandi löggjöf um útlendinga verði þýdd yfir á ensku og önnur tungumál, líkt og gert var við eldri útlendingalög. Claudie telur núverandi stöðu þýða aukinn kostnað og álag, bæði fyrir þá útlendinga sem lesa ekki íslensku og stofnanir.

Í dag greindi Ríkisútvarpið  loks frá málshöfðun 71 Varsjárfara á hendur Wow air. Flugfélagið hefur neitað að greiða farþegunum 400 evrur hverjum í bætur, þrátt fyrir úrskurði Samgöngustofu og samgönguráðuneytisins. Páll Bergþórsson, lögmaður farþeganna, sagði um þetta að að hans mati hefði verið réttast af Wow að greiða einfaldlega bæturnar og höfða í kjölfarið ógildingarmál á hendur íslenska ríkinu.