Framboð, brottvísunarmál og meira um Guðmundar- og Geirfinnsmál
Það skemmtilega atvik átti sér stað í gær að þrír lögfræðingar Réttar komu fyrir í þremur fyrstu fréttunum í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Í fyrstu fréttinni var greint frá því að Jórunn Pála Jónasdóttir hefði verið valin til að sitja í 9. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum í maí. Í sömu frétt var einnig greint frá því að Hildur Björnsdóttir, fyrrum starfsmaður Réttar, myndi skipa 2. sæti listans. Sjá meira um málið hér.
Í annarri fréttinni var rætt við Claudie Ashonie Wilson um dómsmál sem hún rekur og talið er að verði fordæmisgefandi um rétt barna samkvæmt 102. gr. útlendingalaga. Í fréttinni var rætt um staðreynd að Útlendingastofnun hefur ákveðið að vísa viðkomandi fjölskyldu úr landi þrátt fyrir dómsmálið og ætluð áhrif ákvörðunarinnar á málareksturinn. Í viðtalinu sagði Claudie meðal annars: „Þetta náttúrulega snýr að því hvað er barninu fyrir bestu. Hvort þetta barn hafi líka rétt á því að fá úrlausn dómstóla um sín mál“. Sjá má meira um málið hér.
Í þriðju fréttinni var rætt við Ragnar Aðalsteinsson um stöðuna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, en líkt og greint var frá á heimasíðu Réttar í gær hafa fjölmiðlar verið áhugasamir um þá niðurstöðu setts ríkissaksóknara að krefjast sýknu í málinu. Sjá meira um umfjöllun Ragnars hér.
Fréttatíma Stöðvar 2 frá því í gær má sjá í heild sinni hér.
Þá fjallaði Ragnar einnig um stöðu málsins í Kastljósi í gær ásamt öðrum verjanda í málinu, Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Sjá má umfjöllun Kastljóss hér.