Fréttir / News

Freyja Haraldsdóttir sigraði í Hæstarétti

  |   Fréttir af stofunni

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli nr. 21/2019 (Barnaverndarstofa gegn Freyju Haraldsdóttur) þar sem Freyja hafði betur. Málið var flutt munnlega fyrir viku síðan.

Málið á sér langan aðdraganda þar sem liðin eru fjögur ár frá hinni upphaflegu höfnun Barnaverndarstofu á umsókn Freyju um að gerast fósturforeldri, sem var tekin áður en öllu matsferlinu var lokið. Sú ákvörðun var kærð og staðfest af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála þann 27. maí 2016. Mál var höfðað til ógildingar á þeirri ákvörðun en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfum Freyju þann 6. júní 2018. Því hafði fengist þreföld synjun í málinu þegar Landsréttur komst loks að gagnstæðri niðurstöðu í dómi sínum þann 22. mars 2019 sem fjallað var um á heimasíðu Réttar. Hæstiréttur hefur nú staðfest niðurstöðu Landsréttar.

Í dómnum segir:

„…fær sú niðurstaða að gefa hafi átt stefndu kost á að fara á umrætt námskeið, áður en ákvörðun var tekin um umsókn hennar, stuðning í grein 20.3.3 í fyrrgreindri handbók áfrýjanda. Þar kemur fram að þegar áfrýjanda hefur borist umsögn barnaverndarnefndar gefist umsækjanda kostur á að sækja námskeiðið. Loks er þess að gæta að á heimasíðu áfrýjanda á þeim tíma sem hér um ræðir, þar sem umrætt námskeið var kynnt, sagði að skilyrði til þátttöku á því væri að viðkomandi hefði samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæminu sem fósturforeldri. Í tilviki stefndu bar við það mat, sem fram fór, að líta sérstaklega til þess markmiðs fyrrnefndra laga um fatlaða, sem stoð eiga í stjórnarskrá, að henni yrðu við úrlausn máls skapaðar sem sambærilegastar aðstæður og ófötluðum einstaklingum án þess þó að raska þeim grundvallarhagsmunum barns að það sem því er fyrir bestu sé ávallt í fyrirrúmi.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið var sú ákvörðun áfrýjanda að synja stefndu um leyfi til að gerast fósturforeldri á þessu stigi málsins, án þess að gefa henni áður kost á að sækja umrætt námskeið, í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.“

Sigurður Örn Hilmarsson, einn af eigendum Réttar flutti málið fyrir Hæstarétti, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, annar af eigendum Réttar, flutti málið fyrir Landsrétti og fluttu hún og Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, lögmaður, málið fyrir héraðsdómi.