Fréttir / News

Frumkvæðisathugun á vistun einstaklinga í sjálfsvígshættu í fangageymslum

  |   Fréttir af stofunni

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun sinni á vistun einstaklinga í sjálfsvígshættu í fangageymslum með bréfi, dags. 6. mars. 2019.

Líkt og fram kemur á heimasíðu umboðsmanns hafði embættinu undanfarin sex ár borist kvartanir og ábendingar um atvik þar sem fangar í sjálfsvígshættu voru látnir dvelja klæðalitlir eða klæðalausir í fangaklefum, án þess að kallað hafi verið eftir heilbrigðisaðstoð.

Í júní 2017 skrifaði einn af lögmönnum Réttar umboðsmanni bréf um að hugsanlega væri tilefni til að taka framangreint til frumkvæðisathugunar – í ljósi þess að tveir umbjóðendur Réttar hefðu nýverið lent í framangreindri stöðu í fangaklefa. Í bréfinu var athygli umboðsmanns sérstaklega vakin á óbirtum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, frá 26. október 2016, í máli nr. E-217/2016, sem er mál sem annar lögmaður Réttar rak, þar sem dómurinn taldi að rétt hefði verið að fara með tiltekinn einstakling við þessar aðstæður til læknis þegar eftir handtöku en vista hann ekki hálfnakinn í fangaklefa við óviðunandi aðstæður.

Þriðji umbjóðandi Réttar lenti svo enn í framangreindri stöðu í snemma árs 2018 og var athygli umboðsmanns sérstaklega vakin á því máli, svo sem vísað er til í bréfi embættisins.

Umboðsmaður kannaði verklag allra lögregluembætta landsins í þeim tilvikum þar sem grunur vaknar um sjálfsvígshættu fanga. Þá sendi umboðsmaður bréf bæði til ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra að þeirri athugun lokinni, þar sem bent var á að „að það kunni að fela í sér ómannlega eða vanvirðandi meðferð að vista mann klæðalausan í fangaklefa í skilningi [1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu], sbr. t.d. dóm mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 7. júlí 2011 í máli Hellig gegn Þýskalandi, þar sem slíkt athæfi var talið varða við 3. gr. MSE.“

Niðurstaða ríkislögreglustjóra var að það gæti vart talist réttlætanlegt að einstaklingar í sjálfsvígshættu eða af öðrum tilefnum séu látnir dveljast klæðalausir í fangageymslu. Féllust bæði ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra á að við að samræma þyrfti verklag með formlegum hætti til að tryggja að vistun við slíkar aðstæður samræmist lögum og alþjóðlegum skuldbindingum.

Með vísan til þess næsta skrefs lauk umboðsmaður athugun sinni.

Réttur fagnar framangreindri niðurstöðu og vonast til að framangreint leiði til faglegs verklags í samræmi við réttindi sakborninga.