Héraðsdómur dæmdi blaðamanni og fjölmiðli í vil
Í síðustu viku komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að Útgáfufélagið Stundin og fyrrverandi blaðamaður Stundarinnar, Hjálmar Friðriksson, skyldu sýknuð af kröfu nafngreinds læknis í meiðyrðamáli. Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, einn af lögmönnum Réttar, flutti málið fyrir hönd stefndu.
Greint var frá þessu á bls. 2 í Fréttablaðinu í gær en um áhugaverðan dóm um tjáningarfrelsi fjölmiðla er að ræða.
Í forsendum dómsins sagði meðal annars:
„Aðhaldshlutverk fjölmiðla snýr ekki aðeins að stjórnmálamönnum og kjörnum fulltrúum heldur á það einnig við um opinbera starfsmenn, en um þá gildir þá rúmt tjáningarfrelsi varðandi það sem snertir opinbert hlutverk þeirra. Stefnandi er starfandi læknir og jafnframt opinber starfsmaður sem hefur verið ákærður fyrir líkamsárás í öðru landi. Stefnandi starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, þar sem vísað er til siðareglna sem skírskota til vammleysis í líferni og starfi og árétta það að læknar geti aðeins vænst trausts með því að gera sér far um að uppfylla þær siðferðislegu kröfur sem læknisstarfinu fylgja. Umfjöllun stefndu varðaði því miðlun upplýsinga um opinberan starfsmann sem sætti ákæru í erlendu landi fyrir alvarlegt refsivert brot, sem vakti upp spurningar um hæfni hans og kröfur til heilbrigðisstarfsmanna almennt út frá lögum og siðareglum sem um þá gilda. Sú háttsemi stefnanda sem var til umfjöllunar hjá stefndu var því þess eðlis að um hana gildir rýmkað frelsi til tjáningar, auk þess sem Mannréttindadómstóllinn hefur skýrt kveðið á um að í tjáningarfrelsi felist slík grundvallarréttindi að skýra beri allar undantekningar frá því þröngt.“
Tjáningarfrelsismál eru meðal sérsviða lögmanna Réttar, sjá t.d. fyrri fréttir um slík mál hér, hér og hér.